Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

23

Heiðranir á ársþingi HSÍ

04.05.2018

Ársþing Handknattleikssambands Íslands fór fram 28. apríl síðastliðinn. Guðmundur B. Ólafsson var endurkjörinn formaður sambandsins. Reynir Stefánsson og Þorgeir Haraldsson komu nýjir inn í stjórn í stað Guðjóns L. Sigurðssonar og Jakobs Sigurðssonar sem ekki gáfu kost á sér til endurkjörs. Þá voru Arnar Þorkelsson, Guðríður Guðjónsdóttir endurkjörin í stjórn. Kosið var um 3 varamenn til eins árs en það voru þau Hannes Karlsson, Inga Lilja Lárusdóttir og Magnús Karl Daníelsson.
Velta sambandsins á rekstrarárinu 2017 var kr. 206.682.672.- Tap ársins var kr. 38.752.198.- en helstu ástæður þessarar niðurstöðu er að færa þurfti niður kröfur sem og leiðrétta ýmsar færslur sem gáfu ekki rétta mynd af stöðunni. Rekstrarárið 2017 var jákvætt að gefnu tilliti til einskiptiskostnaðar og rekstraráætlun 2018 gerir ráð fyrir hagnaði.
Á þinginu var samþykkt tillaga um áskorun til stjórnar að taka hart á fólskubrotum á leikvelli. 

Sigríður Jónsdóttir varaforseti ÍSÍ var fulltrúi sambandsins á þinginu. Hún annaðist afhendingu heiðursviðurkenninga fyrir hönd framkvæmdastjórnar ÍSÍ og sæmdi Kjartan Steinbach Heiðurskrossi ÍSÍ fyrir frábær störf í þágu handknattleiks á Íslandi. Einnig sæmdi hún Guðjón L. Sigurðsson fráfarandi stjórnarmann HSÍ og Ástu Óskarsdóttur fyrrverandi gjaldkera HSÍ Gullmerki ÍSÍ. Á myndinni má sjá frá vinstri, Sigríði, Guðjón, Kjartan og Ástu.