Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22

Sigurður Eiríksson nýr formaður UMSE

03.04.2018

Ársþing Ungmennasambands Eyjafjarðar (UMSE) fór fram í félagsheimilinu Laugarborg í Eyjarfjarðarsveit 22. mars sl. Góð mæting var á þingið en 31 fulltrúi af 46 mættu til þings og áttu öll félög innan sambandsins fulltrúa.

Bjarnveig Ingvadóttir gaf ekki kost á sér áfram í embætti formanns og var Sigurður Eiríksson kjörinn nýr formaður sambandsins. Sigurður gegndi áður embætti varaformanns. Mikil endurnýjun varð á stjórn sambandsins en í henni sitja, ásamt Sigurði formanni, Þorgerður Guðmundsdóttir varaformaður, Kristlaug Valdimarsdóttir ritari, Einar Hafliðason gjaldkeri og Hólmfríður Gísladóttir meðstjórnandi. Í varastjórn sambandsins sitja Guðrún Sigurðardóttir, Björgvin Hjörleifsson og Edda Kamilla Örnólfsdóttir.

Á þinginu var fimm einstaklingum veitt starfsmerki UMSE, þeim Stefáni Friðgeirssyni, Guðrúnu Ernu Rúdólfsdóttir og Christina Niewert frá Hestamannafélaginu Hring og Jónínu Guðrúnu Jónsdóttur frá Umf. Svarfdæla. Skíðafélag Dalvíkur hlaut Félagsmálabikar UMSE.

Ingi Þór Ágústsson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ var fulltrúi ÍSÍ á þinginu. Hann sæmdi Bjarnveigu Ingvadóttur fráfarandi formann UMSE Gullmerki ÍSÍ fyrir störf hennar í þágu íþróttahreyfingarinnar á starfssvæði UMSE. Bjarnveig var fjarverandi en Sigurður Eiríksson, nýr formaður UMSE, tók við merkinu fyrir hennar hönd og er myndin tekin við það tækifæri.

Ársskýrslu sambandsins, fréttir og myndir frá þinginu má finna á heimasíðu UMSE, www.umse.is.