Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22

Hjólað í háskólann 2018

03.04.2018

Almenningsíþróttasvið ÍSÍ og umhverfis- og samgöngunefnd Stúdentaráðs Háskóla Íslands munu leiða saman reiðhesta sína að nýju í sameiginlegu hjólreiðaátaki nemenda HÍ dagana 9.-15. apríl 2018. Hin hefðbundna keppni Hjólað í vinnuna er ávallt haldin í byrjun maí á ári hverju en sá tími er venjulega mikill álagstími fyrir háskólanema vegna vorprófa og hafa þeir oft átt erfitt með að ná fullri þátttöku sökum þess. Opnað verður fyrir skráningu háskólanema í keppnina þann 6. apríl. Viðburður háskólanema er einnig á facebook hér

Hjólað í Háskólann byrjaði árið 2010 sem samfélagsverkefni fimm nemenda í Umhverfis- og byggingaverkfræðideild en færðist síðar meir undir Umhverfis- og samgöngunefnd SHÍ. Fyrirmyndin er átak ÍSÍ um Hjólað í vinnuna þar sem lögð er áhersla á fýsileika reiðhjólsins sem heilsusamlegs, umhverfisvæns og hagkvæms samgöngumáta. Enn fremur er átakinu og keppninni ætlað að styrkja jákvætt og heilbrigt félagslíf í Háskóla Íslands.

Góður grundvöllur var því fyrir samstarfi ÍSÍ og SHÍ á þeim nótum að tölvu- og skráningarkerfi heimasíðunnar Hjólað í vinnuna var notað undir keppnina Hjólað í Háskólann 2017. Gekk samstarfið og átakið með ágætum á síðasta ári og því rakið dæmi að endurtaka leikinn.

Hjólað í vinnuna hefst þann 2.maí og stendur til 22.maí en áður en að því kemur munu háskólanemar taka forskot á sæluna og hita upp með sínu eigin hjólreiðaátaki.

Vefsíða Hjólað í vinnuna er www.hjoladivinnuna.is og verkefnið er einnig á facebook hér.