Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22

85. ársþing USÚ

14.03.2018

85. ársþing USÚ var haldið í Hofgarði í Öræfum þann 12. mars sl. 24 ár eru liðin síðan ársþing USÚ var síðast haldið í Öræfum. Þingið var ágætlega sótt, 27 fulltrúar af 42 mættu frá flestum félögum.

Segja má að þingið hafi verið frekar óvenjulegt að ýmsu leyti. Viku fyrir þing lá fyrir að formaður USÚ gæti ekki mætt á þingið, þar sem hún var komin á síðasta mánuð meðgöngu. Þá var veðurspáin fyrir Öræfin þennan daginn ekkert spennandi, strekkingsvindur, vindhviður upp undir 34 m/s við Sandfell og einhver smávægileg snjókoma með. Þá fór rafmagnið af Öræfum í hádeginu, og því var á tímabili nokkuð tvísýnt hvort þingið gæti yfir höfuð farið fram. Komið hafði verið á varaafli á Hofi áður en þingið hófst, en rafmagnið datt svo aftur út á meðan þingfulltrúar gæddu sér á dýrindis kjötsúpu sem boðið var upp á. Það kom hins vegar inn aftur stuttu síðar, svo það þurfti ekki að ljúka þinginu við kertaljós.

Fjórar tillögur frá stjórn lágu fyrir þinginu. Fyrst má nefna hvatningu til ungmennafélaga til að fjölmenna á Landsmót UMFÍ og Landsmót UMFÍ 50+, sem haldin verða samhliða á Sauðárkróki 12.-15. júlí n.k. og á unglingalandsmót UMFÍ í Þorlákshöfn um verslunarmannahelgina. Tillagan felur einnig í sér hvatningu til að taka þátt í almenningsíþróttaverkefnum á vegum UMFÍ og ÍSÍ.

Stjórn USÚ gaf kost á sér til endurkjörs og var endurkjörin. Hana skipa: Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður, Kristján Örn Ebenezarson, ritari, og Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri. Varamenn eru áfram Matthildur Ásmundardóttir, Sindra, og Ásta Steinunn Eiríksdóttir, Mána.

Nánari upplýsingar um skýrslu stjórnar, afhendingu viðurkenninga og fleira frá þinginu má finna á vefsíðu USÚ, www.usu.is