Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
27

Verðlaunaafhending Lífshlaupsins 2018

07.03.2018

Verðlaunaafhending Lífshlaupsins fór fram á dögunum í sal KSÍ við Laugardalsvöll. Fulltrúar frá vinnustöðum, grunn-, og framhaldsskólum tóku á móti sínum verðlaunum. Góð þátttaka var í Lífshlaupinu í ár en um 16.000 manns á öllum aldri voru virkir þátttakendur á 505 vinnustöðum, í 29 grunnskólum og 14 framhaldsskólum. Þá voru skráðar um 13 milljónir hreyfimínútna á keppnistímanum og yfir 166 þúsund dagar með lágmarksviðmiði sem verður að teljast gott miðað við veður í febrúar. Mætingin á verðlaunaafhendinguna var stórgóð og salurinn þéttskipaður. Lífshlaupið er orðið að vinnustaða-/skólamenningu á mörgum þeirra staða sem skara fram úr og vinnustaðir og skólar eru duglegir að skapa sínar eigin innanhúshefðir í kringum Lífshlaupið. Þau fyrirtæki og þeir skólar sem höfðu ekki tök á því að mæta á verðlaunaafhendingu fengu verðlaunaplattann sendan til sín.

Besta myndin í myndaleik Lífshlaupsins 2018 var kosin mynd Guðlaugs H. Sigurjónssonar í liðinu Umhverfissvið hjá vinnustaðnum Ráðhús Reykjanesbæjar. Myndin fangar fallega litasamsetningu í náttúrudýrðinni við fjallgöngu á Þorbjörn með góðri tengingu við holla hreyfingu fyrir líkama og sál. Guðlaugur hefur átt kröftugt Lífshlaup í ár með fjölbreyttri hreyfingu við ólympískar lyftingar, crossfit, spinning, fjallgöngu, blak o.fl. Hans lið varð hlutskarpast innan Ráðhúss Reykjanesbæjar og vinnustaðurinn átti frábæra keppni og endaði í 4. sæti í hlutfalli mínútna og daga í sínum fjöldaflokki í vinnustaðakeppninni. Í verðlaun hlýtur Guðlaugur veglega ostakörfu frá Mjólkursamsölunni, kassa af Hleðslu, loyalty-kort fyrir 10 djúsa frá Joe & the Juice og gjafakort frá Klifurhúsinu í klifur fyrir tvo.

Í flokki „Hópmynd Lífshlaupsins 2018“ voru tvær myndir hnífjafnar í stigagjöfinni og því ekki annað hægt að gera en að verðlauna báða aðila fyrir sitt framlag. Fyrri myndina tók Unnur Árnadóttir í Aðalliðinu á vinnustaðnum Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkissins en hópmyndin er litrík og skemmtileg af hlaupahópi ÍR að loknum góðum spretti. Unnur hefur gert frábært mót í Lífshlaupinu þetta árið og náð lágmarkshreyfingu á hverjum degi sem er flottur árangur. Seinni hópmyndin er eftir Ragnheiði Sveinbjörnsdóttur í Hólaliðinu í Hólabrekkuskóla og er tekin við fjallstindinn á Esjunni af hraustum fjallgönguhóp. Ragnheiður hefur verið gríðarlega öflugur Lífshlaupari og farið í fjallgöngur á Esjuna, hlaupið í Heiðmörk og m.a. náð að hlaupa samtals 85 kílómetra á einni viku. Hún hefur verið ötull myndasmiður og fjölmargar myndir sem hún hefur deilt með Lífshlaupinu í gegnum Instagramið sitt. Báðir myndasmiðir hljóta veglega ostakörfu og drykki frá Mjólkursamsölunni.

ÍSÍ óskar sigurvegurum til hamingju með árangurinn, þakkar fyrir frábæra þátttöku og hvetur alla til að halda áfram að hreyfa sig og nota vef Lífshlaupsins, www.lifshlaupid.is, til þess að halda utan um sína hreyfingu. Einstaklingskeppni Lífshlaupsins er í gangi allt árið og gefst þátttakendum kostur á að vinna sér inn brons-, silfur-, gull-, og platínumerki eftir að hafa náð ákveðnum fjölda daga í hreyfingu.

Myndir frá verðlaunaafhendingu Lífshlaupsins 2018 eru komnar á myndasíðu ÍSÍ.

Myndir með frétt