Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

21

Námskeið ungra þátttakenda í Grikklandi

21.02.2018

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands auglýsir eftir tveimur þátttakendum, kven- og karlkyns, á námskeið ungs íþróttafólks (20 til 35 ára) á vegum Alþjóða Ólympíuakademíunnar í Ólympíu í Grikklandi dagana 16.-30. júní n.k. Að þessu sinni er aðal umfjöllunarefnið íþróttamaðurinn sem fyrirmynd og áskoranir ólympískra íþróttamanna sem fyrirmynd. Þetta er einstakt tækifæri til að kynna sér starfsemi Alþjóða Ólympíuakademíunnar ásamt því að taka þátt í umræðum um gildi og hugsjónir Ólympíuhreyfingarinnar.

Flugferðir, gisting og uppihald eru þátttakendum að kostnaðarlausu.
Leitað er að einstaklingum sem náð hafa mjög góðum árangri í íþróttagrein (-greinum) og/eða sinnt kennslu/þjálfun/félagsstörfum innan íþróttahreyfingarinnar, ásamt því að sýna málefnum Ólympíuhreyfingarinnar sérstakan áhuga. Æskilegt er að umsækjandi sjái fram á áframhaldandi starf innan íþróttahreyfingarinnar á næstu árum. Umsækjandi þarf að hafa gott vald á ensku og/eða frönsku og vera fyrirmynd annars æskufólks í hvívetna.
Þátttakendur taka þátt í alþjóðlegu námskeiðahaldi í tæpar tvær vikur og búa á heimavist Alþjóða Ólympíuakademíunnar í Ólympíu. Unnið er í lotum fyrir hádegi og eftir hádegi sem gjarnan lýkur á umræðum. Að því loknu er ýmislegt gert til að hrista hópinn saman. Keppt í allskonar íþróttum, farið á ströndina og í skoðunarferðir. Reynsla þeirra sem hafa farið er að þau hafa öðlast dýpri skilning á sögu Ólympíuleikanna, fyrir hvað Ólympíuhugsjónin stendur og hvernig megi miðla þeirri þekkingu áfram. Það dýrmætasta hafa þó verið vináttuböndin sem þátttakendur mynda að lokinni tveggja vikna dvöl. 

Að loknu hverju námskeiði er tekin saman skýrsla og fyrir forvitna þá er hægt að glugga í skýrslu frá 2015 þar sem Jakob Jóhann Sveinsson ólympíufari er meðal annars með stutt erindi sem hann flutti á námskeiðinu. Í skýrslunni má finna myndir af námskeiðinusem gefa smá innsýn inn í hvað á sér stað meðan á dvölinni stendur. Sjá skýrsluna hér.

Umsóknum skal skilað, á þar til gerðum eyðublöðum til skrifstofu ÍSÍ, Íþróttamiðstöðinni í Laugardal, ekki seinna en miðvikudaginn 28. febrúar n.k. Hægt er að nálgast umsóknareyðublöðin hér.

Umsókn skal skilað á ensku á skrifstofu ÍSÍ og skulu fylgja henni tvær passamyndir. 

Frekari upplýsingar veitir Ragnhildur Skúladóttir sviðsstjóri þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ sími 514 4000, ragnhildur@isi.is.

Einnig má benda á heimasíður IOA hér og hér