Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

21

Ársþingi KSÍ lokið

18.02.2018

72. ársþing KSÍ fór fram á Hótel Nordica Reykjavík 10. febrúar sl. Þingið var fjölmennt að venju þrátt fyrir leiðinlegt ferðaveður á landinu. Rekstur sambandsins árið 2017 var að mestu leyti í samræmi við fjárhagsáætlun og er fjárhagur sambandsins traustur.

Tíu frambjóðendur voru í kjöri um fjögur sæti í aðalstjórn sambandsins og urðu eftirfarandi í efstu fjórum sætunum:  Ingi Sigurðsson Vestmannaeyjum, Gísli Gíslason Akranesi, Ragnhildur Skúladóttir Reykjavík og Valgeir Sigurðsson frá Garðabæ. Auk þeirra sitja í aðalstjórn (tveggja ára kjörtímabili þeirra lýkur í febrúar 2019): Guðrún I. Sívertsen varaformaður, Reykjavík, Borghildur Sigurðardóttir Kópavogi, Magnús Gylfason, ritari, Hafnarfirði og Vignir Már Þormóðsson Akureyri. Ingvar Guðjónsson Grindavík, Jóhann Torfason Ísafirði og Kristinn Jakobsson Kópavogi voru kjörnir í varastjórn sambandsins. Eftirtaldir aðilar voru kjörnir sem aðalfulltrúar landsfjórðunga: Jakob Skúlason - Vesturland, Björn Friðþjófsson - Norðurland, Bjarni Ólafur Birkisson - Austurland og Tómas Þóroddsson - Suðurland

Á þinginu voru lagðar fram víðtækar breytingar og lagfæringar á lögum sambandsins en þingið samþykkti að vísa þeim, ásamt breytingartillögum þar á, til næsta ársþings KSÍ og að vinnu nefndar KSÍ um málefnið verði framhaldið fram að næsta ársþingi. Á þinginu var einnig samþykkt að stjórn KSÍ skori á íslensk stjórnvöld að setja á fót áætlun, sambærilega þeirri sem nefnist Skoska leiðin eða Air Discount Scheme og var sett á fót af skoskum stjórnvöldum árið 2005. Markmiðið með þeirri áætlun er að auka aðgengi að flugþjónustu á viðráðanlegu verði frá jaðarbyggðum. Að íbúar með heimilisfesti á skilgreindum jaðarsvæðum hafi betri aðgengi að stjórnsýslu, þjónustu og afþreyingu og stuðli að meiri félagslegri þátttöku í borgarsamfélaginu. Um væri að ræða verulega niðurgreiðslu á flugfargjöldum fyrir íbúa á skilgreindum landssvæðum.

Ýmsar viðurkenningar voru afhentar á þinginu, svo sem Fjölmiðlaviðurkenning KSÍ, Dómaraverðlaun KSÍ, háttvísiverðlaun og Grasrótarverðlaun KSÍ, svo eitthvað sé nefnt. Nánari umfjöllun um heiðursveitingar og þingið má finna á heimasíðu KSÍ.

Sigríður Jónsdóttir varaforseti ÍSÍ ávarpaði þingið en aðrir fulltrúa ÍSÍ á þinginu voru Gunnar Bragason gjaldkeri, Hafsteinn Pálsson ritari og Örn Andrésson stjórnarmaður.