Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
21

Vel sótt ráðstefna um afreksþjálfun barna

26.01.2018

Íþróttabandalag Reykjavíkur, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Háskólinn í Reykjavík stóðu í sameiningu fyrir íþróttaráðstefnu í gær í tengslum við Reykjavíkurleikana. Innihald ráðstefnunnar var afreksþjálfun barna.

Eftir að Sigríður Jónsdóttir varaforseti ÍSÍ hafði sett ráðstefnuna talaði Dr. Viðar Halldórsson um þann eftirtektarverða árangur sem íslenskt íþróttafólk hefur náð á undanförnum misserum. Hvaða áhrif árangurinn hefur á væntingar, áherslur og skipulag íþrótta hjá börnum og unglingum í nánustu framtíð. Þá flutti Dr. Sigríður Lára Guðmundsdóttir fyrirlestur um mikilvægi svefns, hvaða áhrif svefn hefur á líðan og frammistöðu íþróttafólks og velti upp spurningunni hvort að morgunæfingar fyrir skóla væru æskilegar. Næstur í röðinni var Sveinn Þorgeirsson, aðjúnkt í íþróttafræði í HR, en fyrirlestur hans fjallaði um sérhæfingu í íþróttum og mikilvægi þess að ungt íþróttafólk geti æft fleiri en eina íþróttagrein. Fjórða fyrirlesturinn hélt Sólveig Jónsdóttir framkvæmdastjóri FSÍ og fjallaði hún um breytingar á umhverfi fimleikafólks með auknu framboði fimleikagreina. Síðastur á mælendaskrá var Daði Rafnsson knattspyrnuþjálfari en í fyrirlestri hans kom fram að þrátt fyrir góðan árangur þá væri rými fyrir bætingar.

Ráðstefnan var vel sótt og sköpuðust miklar og góðar umræður í lokin. Ráðstefnunni stýrði Ingvar Sverrisson formaður ÍBR af mikilli röggsemi.

Ráðstefnan var tekin upp og hægt er að horfa á hana á Vimeo-síðu ÍSÍ:

Fyrri hluti.

Seinni hluti.

Myndir frá ráðstefnunni má sjá hér á myndasíðu ÍSÍ

Myndir með frétt