Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
21

Ungur áhrifavaldur í Buenos Aires 2018

19.01.2018

Þann 6. október 2018 hefjast Ólympíuleikar ungmenna (The Youth Olympic Games, YOG) í borginni Buenos Aires í Argentínu. Ísland mun eiga fulltrúa í hópi ungra áhrifavalda á leikunum, eða Young Change Makers og eru það 120 lönd sem fá að tilnefna slíkan aðila. Fulltrúi Íslands verður Ingibjörg Kristín Jónsdóttir, sundkona. Ingibjörg Kristín er sjálf margreynd keppniskona í sundi og á Íslandsmet í 50 metra baksundi. Ingibjörg Kristín hefur keppt á fjölmörgum stórmótum, meðal annars keppti hún á fyrstu Ólympíuleikum Ungmenna sem fram fóru í Singapore árið 2010.

Ungu áhrifavaldarnir þurfa að vera á aldrinum 18 til 25 ára og þeirra hlutverk á leikunum verður m.a. að halda utan um fræðslu og félagslega þætti í kringum keppendur. Eiga þeir að miðla af reynslu sinni og skila jákvæðum áhrifum áfram til næstu kynslóðar íþróttamanna. Ungu áhrifavaldarnir tilheyra þátttakendahóp síns lands og búa í Ólympíuþorpinu. Þeir sem sinna hlutverkinu taka þátt í störfum fararstjórnar og aðstoða hópinn eftir föngum.

Lesa má um áhrifavaldana á vefsíðu Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC) hér.

Ólympíuleikar ungmenna eru ætlaðir fyrir ungt afreksfólk í íþróttum á aldrinum 15 til 18 ára. Keppt er í mörgum greinum og skiptast leikarnir í sumarleika og vetrarleika eins og Ólympíuleikar fullorðinna. Hugmyndina á Jacues Rogge forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar og var hún kynnt til sögunnar árið 2001. Árið 2007 var ákveðið að koma á fót Ólympíuleikum ungmenna og fóru fyrstu sumarleikarnir fram árið 2010 í Singapore og 2014 fóru sumarleikarnir fram í Nanjing í Kína.

Sumarleikarnir standa yfir að hámarki í 12 daga. Hámarksfjöldi þátttakenda á leikunum eru 3500 íþróttamenn og 875 dómarar. Ísland mun eiga þátttakendur og ungan áhrifavald á leikunum.

Vefsíða leikanna er buenosaires2018.com