Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

21

Ársþingi GSÍ lokið

29.11.2017

Ársþing Golfsambands Íslands var haldið laugardaginn 25. nóvember sl. í Laugardalshöll. Haukur Örn Birgisson verður áfram forseti sambandsins en hann hefur gegnt því embætti frá árinu 2013. Fjórir gengu úr stjórn að þessu sinni og voru því fjórir nýjir stjórnarmenn kjörnir inn í stjórn sambandsins. Það eru þau Jón B. Stefánsson, Jón Steindór Árnason, Hulda Bjarnadóttir og Hörður Geirsson. Aðrir í stjórn sambandsins eru Eggert Ágúst Sverrisson, Kristín Guðmundsdóttir, Gunnar K. Gunnarsson, Hansína Þorkelsdóttir, Bergsteinn Hjörleifsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Már Sveinbjörnsson hlaut viðurkenningu á þinginu sem sjálfboðaliði ársins. Már er fjórði einstaklingurinn til að hljóta þetta sæmdarheiti en GSÍ hóf að veita viðurkenninguna árið 2014.

Í ársskýrslu sambandsins og ársreikningum kemur fram að síðasta starfsár sambandsins hefur verið það besta frá upphafi. Íslenskum kylfingum er að fjölga og rekstrarárangur fór fram úr væntingum.

Á ársþingi Evrópska golfsambandsins (EGA) nú nýlega í Lausanne í Sviss, var Haukur Örn Birgisson formaður GSÍ kjörinn næsti forseti sambandsins. Hann mun því gegna embætti „verðandi forseta” næstu tvö árin og taka við formennsku árið 2019. Haukur Örn hefur setið í framkvæmdastjórn EGA frá árinu 2015 og þar áður í mótanefnd EGA tímabilið 2010-2014.

Sigríður Jónsdóttir varaforseti ÍSÍ var fulltrúi sambandsins á þinginu og ávarpaði þingheim. Gunnar Bragason gjaldkeri ÍSÍ var þingforseti. Aðrir fulltrúar ÍSÍ voru Hafsteinn Pálsson ritari og Garðar Svansson sem einnig var þingfulltrúi.

ÍSÍ óskar Hauki Erni innilega til hamingju með kjörið. Það er mikill stuðningur við golfhreyfinguna á Íslandi að Íslendingur gegni svo háttsettri stöðu innan golfhreyfingarinnar.