UMSK 95 ára
Ungmennasamband Kjalarnesþings var stofnað 19. nóvember 1922 og átti því 95 ára afmæli í gær. Sambandið er með höfuðstöðvar sínar í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal og var öllu starfsfólki í miðstöðinni, sem og starfsfólki UMFÍ, boðið upp á kaffi og afmælisköku í morgun í tilefni gærdagsins. UMSK er síungt samband þrátt fyrir háan aldur enda nær starfssvæði sambandsins yfir stór byggðarlög með fjölda ungra iðkenda.
Fjögur félög stóðu að stofnun sambandsins á sínum tíma, þ.e. Ungmennafélagið Drengur í Kjós, Ungmennafélagið Afturelding í Mosfellsbæ, Ungmennafélag Reykjavíkur og Ungmennafélag Miðnesinga í Sandgerði. Stofnþingið var haldið í Reykjavík og fyrstu stjórn sambandsins skipuðu Guðbjörn Guðmundsson formaður, Guðrún Björnsdóttir ritari og Þorlákur Björnsson gjaldkeri. Jón M. Ívarsson sagnfræðingur vinnur við að skrá sögu sambandsins og hefur saga þess árin 1922 til 1962 verið birt á heimasíðu UMSK, www.umsk.is og er þar mikinn fróðleik að finna og skemmtilegar myndir frá fyrstu árum sambandsins. Er stefnt að því að ljúka sögurituninni á 100 ára afmæli sambandins árið 2022.
Innilega til hamingju með daginn UMSK!