Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
23

Formannafundur 2017 fór fram í dag

17.11.2017

Árlegur Formannafundur ÍSÍ var haldinn í dag föstudaginn 17. nóvember í Laugardalshöllinni. Nú var í fyrsta sinn boðað til fundarins skv. breyttum lögum ÍSÍ en á 73. Íþróttaþingi ÍSÍ í maí síðastliðnum var samþykkt að bæta framkvæmdastjórum sambandsaðila við sem þátttakendum í fundinum. Ríflega 100 manns sóttu fundinn.
 
Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ ávarpaði fundinn við fundarsetningu. Hann minnist á að 1. nóvember sl. voru 20 ár liðin frá sameiningu Íþróttasambands Íslands og Ólympíunefndar Íslands en sameining samtakanna var flókin og ekki átakalaus. Hann sagði engan vafa liggja á að ákvörðunin um að sameina þessi samtök hafi verið hárrétt. Verulegt hagræði hafi orðið af sameiningunni og afl og kraftur íþróttahreyfingarinnar aukist til muna.
Lárus minntist á þá miklu ábyrgð sem íþróttahreyfingin ber í því að verja börn og unglinga fyrir kynferðislegu ofbeldi og einnig í því að íþróttafélög verði áfram öruggur staður þar sem þjálfarar, sjálfboðaliðar, börn og unglingar geta hist og upplifað gleði og samheldni. Hann ræddi einnig mikilvægi jafnréttis í hreyfingunni með tilliti til lögbundins hlutverks ÍSÍ að berjast gegn hvers kyns mismunun. Lárus sagði allar einingar íþróttahreyfingarinnar geta haft áhrif á þessi mál og minnti fundargesti á að halda vöku sinni við að skapa og viðhalda jafnrétti í íþróttum sem og í stjórnum og ráðum. 
 
Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ flutti skýrslu stjórnar og Gunnar Bragason gjaldkeri ÍSÍ fór yfir fjárhagslegar upplýsingar.
 
Framkvæmdastjórn lagði fjögur mál fyrir Formannafund til kynningar og umræðu. Þorvaldur Ingimundarson heilindafulltrúi KSÍ kynnti stöðu mála í baráttunni gegn hagræðingu úrslita í íþróttakeppnum, Vigfús Þorsteinsson formaður stýrihóps ÍSÍ og UMFÍ um Felix upplýsti fundinn um stöðuna á nýja Felix, félagakerfi ÍSÍ og UMFÍ, Andri Stefánsson sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ fór yfir helstu verkefni Afrekssjóðs, þær breytingar sem orðið hafa á regluverkinu og þá vinnu sem framundan vegna úthlutana úr sjóðnum og Ragnhildur Skúladóttir sviðsstjóri Þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ kynnti verkefni ÍSÍ og UMFÍ sem ber heitið Betra félag.  
 
Að loknum fundi bauð ÍSÍ fundargestum til kvöldverðar í Café Easy.

Myndir frá Formannafundinum má sjá á myndasíðu ÍSÍ hér.