Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

3

Vítamín í Val og Kraftur í KR

19.10.2017

Tvö áhugaverð verkefni eru að hefja göngu sína í íþróttafélögunum Val og KR. Verkefnin bera heitin „Vítamín í Val“ og „Kraftur í KR“ og eru ætluð eldri borgurum í nágrenni við félögin. Markmiðið með verkefnunum er að bjóða eldri borgurum upp á að mæta á fjölbreyttar æfingar með þjálfara í íþróttafélagi og nýta um leið mannvirki íþróttafélaganna. Boðið er upp frístundaakstur frá félagsmiðstöðvum í þessum hverfum og að íþróttafélögunum fyrir eldri borgarana og eru þeir hvattir til að nýta sér hann.

Starfsfólk ÍSÍ á Almenningsíþróttasviði og Þróunar- og fræðslusviði sóttu kynningarfund á verkefnunum sl. fimmtudag þann 12. október. Á fundinum kynntu Sigríður Arndís Jóhannsdóttir, verkefnastjóri Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, og Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvarinnar, verkefnin. Lárus Sigurðsson framkvæmdastjóri Vals sagði gestum frá sögu Vals og Hlíðarendasvæðisins og bauð eldri borgara velkomna í Val og sagðist hann hlakka til að sjá þá í húsinu.
 
Starfsmaður ÍSÍ heimsótti í framhaldi af kynningarfundinum KR heimilið og fylgist með vöskum hópi eldri borgara við æfingar undir leiðssögn sjúkraþjálfara. Mikil ánægja var í hópnum með þetta framtak og vonin er sú að þetta verkefni vaxi og dafni og að sem flestir í hverfinu nýti sér þessa þjónustu.

Myndir með frétt