Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
3

Keilusamband Íslands hlýtur styrk úr Afrekssjóði ÍSÍ

18.10.2017

Keilusamband Íslands (KLÍ) hefur hlotið viðbótarstyrkveitingu úr Afrekssjóði ÍSÍ vegna landsliðsverkefna ársins 2017. Um er að ræða styrk að upphæð 1,6 m.kr. sem bætist við fyrri úthlutun til sambandsins, en sambandið hlaut styrk að upphæð 1,1 m.kr. í fyrri úthlutun ársins úr Afrekssjóði ÍSÍ.

Fjölmörg verkefni hafa verið á dagskrá hjá Keilusambandinu á árinu og má nefna Evrópumót unglinga og Evrópubikar einstaklinga auk Norðurlandaverkefna, Smáþjóðamóts og æfingabúða. Stærsta verkefni ársins 2017 er þó framundan en um er að ræða HM í Las Vegas. Kvennalið Íslands vann sér inn þátttökurétt á mótinu með frábærum árangri á EM í fyrra en karlaliðið fór bakdyramegin inn á mótið eftir að tvær þátttökuþjóðir hættu við þátttöku. Íslenska liðið var kynnt á blaðamannafundi í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal í dag og við það tækifæri var undirritaður samningur við KLÍ um viðbótarstyrk Afrekssjóðs ÍSÍ til sambandsins.

Það má segja að góður alþjóðlegur árangur hafi náðst á undanförnum árum og er umgjörð afreksstarfs sérsambandsins að eflast, þótt að íþróttin glími við ákveðinn vanda sem snýr að aðstöðumálum. Það er von ÍSÍ að viðbótarstyrkur Afrekssjóðs ÍSÍ muni efla sambandið og keiluíþróttina enn frekar til áframhaldandi afreka.

Á myndunum má sjá landslið Íslands í keilu á blaðamannafundinum í dag og þau Lilju Sigurðardóttur, formann Afrekssjóðs ÍSÍ, Lárus L. Blöndal, forseta ÍSÍ, Ásgrím Helga Einarsson, formann KLÍ og S. Unni Vilhjálmsdóttur, gjaldkera KLÍ við undirskriftina.

Vefsíða Keilusambands Íslands er www.kli.is

Myndir með frétt