Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

10

Íþróttavika Evrópu í fullum gangi

27.09.2017

Þann 23. september hófst Íþróttavika Evrópu (European Week of Sports) og stendur hún yfir til 30. september. Þetta er í annað sinn sem Íþróttavikan er haldin á Íslandi en hún var fyrst haldin árið 2015.

Markmiðið með Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og hreyfingu um alla Evrópu og sporna við auknu hreyfingarleysi meðal almennings. Slagorð vikunnar er „BeActive“ eða „Vertu virkur“ og með því er verið að hvetja alla Evrópubúa til að hreyfa sig án tillits til aldurs, bakgrunns eða líkamlegs forms.

Íþróttavikan var ræst með Hjartadagshlaupinu, en hlaupið var frá Kópavogsvelli. Hlaupið er haldið ár hvert í tilefni af hinum alþjóðlega hjartadegi sem haldinn er á heimsvísu þann 29. september.

Íþróttaviðburðir fyrir almenning eru á dagskrá íþróttavikunnar víða um land og hægt er kynna sér þá á vefsíðu BeActive og Facebook-síðu.

Hjólreiðafélag Reykjavíkur býður upp á hjólferð um Öskjuhlíðina og Fossvogsdalinn laugardaginn 30. september kl. 12. Mæting er við vatnsbrunninn við ylströndina í Nauthólsvík og áður en haldið er af stað verður farið stuttlega yfir hvað þarf til við hjólreiðar. Hægt verður að velja um tvær hjólaleiðir, önnur um Fossvogsdalinn á hjólastígunum og hin um Öskjuhlíðina. Félagar úr Hjólreiðafélagi Reykjavíkur munu veita leiðsögn. Það kostar ekkert og allir velkomnir. Hér má sjá viðburðinn á Facebook-síðu Íþróttaviku Evrópu á Íslandi.

ÍSÍ hvetur alla til að taka þátt og nýta tækifærið til að vera virk og finna sér hreyfingu við sitt hæfi. Það er aldrei of seint að byrja að hreyfa sig til að styrkja líkama og sál.

Myndir með frétt