Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
3

Golf og ruðningur áfram á Ólympíuleikum

23.06.2017

Þessa dagana eru allar línur að skýrast hvað varðar Ólympíuleikana í Tókýó 2020. Einnig standa skipuleggjendur Ólympíuleikanna í París og LA í ströngu, því borgirnar keppast um að halda leikana 2024. Útlit er fyrir að allar 28 íþróttagreinarnar sem keppt var í á Ólympíuleikunum í Ríó 2016 verði einnig keppnisgreinar á leikunum í Tókýó 2020 og á leikunum 2024, en nýlega staðfesti framkvæmdastjórn Alþjóðaólympíunefndarinnar endanlega þá viðburði sem fara munu fram á leikunum í Tókýó. Viðburðadagskráin er töluvert breytt frá fyrri leikum, en þessi nýja dagskrá markar stórt skref í þróun Ólympíuleikanna. Breytingin verður til þess að hlutur kynjanna á leikunum jafnast, íþróttafólki fækkar og þar með minnkar umhverfisspor leikanna. 

Íþróttagreinarnar sem keppt verður í á leikunum 2024 verða formlega staðfestar á fundi Alþjóðaólympíunefndarinnar í Lima í Perú 13. - 17. september nk. ásamt því að staðfest verður hvort París eða LA haldi leikana. Alþjóðaólympíunefndin hefur nú þegar lagt til að golf og ruðningur, sem voru nýjar greinar á leikunum í Ríó 2016 og verða keppnisgreinar í Tókýó 2020, verði einnig keppnisgreinar á leikunum 2024 meðal annars þar sem áhugi og áhorf á þær greinar var mikið.