Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Hjólað í vinnuna hálfnað

16.05.2017

Hjólað í vinnuna 2017 er rúmlega hálfnað þetta árið og rífandi gangur er á þátttöku og kílómetraskráningu. Þátttakendur geta enn skráð sig til leiks og því er um að gera að ýta við vinnufélaganum til að virkja hann til góðra hjólreiða. ÍSÍ hvetur alla til að senda inn frásagnir af stemmningunni á vinnustaðnum (á hjoladivinnuna.is) og ekki síður að láta vita hvernig hjólaaðstaðan er á staðnum, því að oft gleymist að það er lykilatriði til þess að hægt sé hjóla til vinnu að staðaldri.

Hægt er að hafa samband við Hjólafærni um að koma í heimsókn með fróðleik, námskeið og vinnustaðavottun. Einnig er hægt að kalla til þúsundþjalasmiðina í Dr. BÆK sem ástandsskoða reiðfákana.

Einnig má því við bæta að vegna eftirspurnar þá var ákveðið að gera nýjan valflokk fyrir vistvænan og virkan ferðamáta, en það er valkosturinn Samferða/ganga. Er það gert til að koma til móts við þá starfsmenn sem sameinast um ferðir og eru samferða áleiðis til vinnu, enda er það vistvæn nálgun að fullnýta bílferðir. Hvað skráningu í keppninni varðar þá gildir þar það sama og með valkostinn Strætó/ganga að eingöngu eru skráðir þeir kílómetrar sem gengnir eru. Til viðbótar má benda á að til er vefsíðan Samferda.net þar sem fólk getur sameinast um að samnýta ferðir sínar og verið samferða víða um land.

Hjólaveðrið er ennþá frábært um allt land þannig að ÍSÍ hvetur alla til að fara út að hjóla.

Vefsíða Hjólað í vinnuna er hjoladivinnuna.is

Hjólað í vinnuna er einnig á Facebook