Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

23

Jón Kaldal í Heiðurshöll ÍSÍ

06.05.2017

Á 73. Íþróttaþingi ÍSÍ útnefndi ÍSÍ Jón Kaldal frjálsíþróttamann í Heiðurshöll ÍSÍ. Jón er sextándi einstaklingurinn sem ÍSÍ útnefnir í Heiðurshöll ÍSÍ.

Heiðurshöll ÍSÍ er óáþreifanleg höll afreksíþróttafólks og afreksþjálfara Íslands, í ætt við Hall of Fame á erlendri grundu. Framkvæmdastjórn ÍSÍ útnefnir einstaklinga í Heiðurshöll ÍSÍ eftir reglugerð þar að lútandi og er Heiðursráð ÍSÍ ráðgefandi aðili varðandi tilnefningar. Með þessu verkefni vill ÍSÍ skapa vettvang til að setja á frekari stall okkar framúrskarandi fólk og skapa minningar í máli og myndum af þeirra helstu afrekum.

Jón Kaldal fæddist í Húnavatnssýslu 24. ágúst 1896 og lést 30. október 1981. Hann hóf að stunda íþróttir hjá ÍR þegar hann fluttist til Reykjavíkur til náms en árið 1918 fór Jón til Danmerkur til frekara náms í ljósmyndun og iðkaði íþróttir þar á meðan á námsdvölinni stóð, undir merkjum íþróttafélagsins AIK. Jón var frábær íþróttamaður og í hópi fremstu hlaupara Norðurlandanna á þessum árum. Danir völdu hann m.a. til þátttöku á Olympíuleikunum í Antwerpen 1920. Sigrar hans eru fjölmargir bæði heima og erlendis. Var hann lengi íslenskur methafi í 3.000, 5.000 og 10.000 m hlaupum. Hann átti m.a. Íslandsmet í 3 km hlaupi í nærri 30 ár eða allt til ársins 1952. Í höfuðstöðvum ÍSÍ er að finna fjölmarga verðlaunagripi Jóns sem bera afrekum hans glöggt vitni.
Árið 1923 varð Jón að hætta keppni í íþróttum, á hátindi síns ferils, vegna veikinda. Árið 1925 sneri hann aftur til Íslands, fullnuma í ljósmyndun, og var þá fljótlega kominn á kaf í leiðtogastörf í íþróttahreyfingunni. Hann var formaður ÍR í allmörg ár og einnig var hann varaforseti ÍSÍ árin 1943-1945. Hann var gerður að Heiðursfélaga ÍSÍ árið 1946 en Jón var einnig Heiðursfélagi ÍR.
Það er ÍSÍ mikill heiður að útnefna Jón Kaldal í Heiðurshöll ÍSÍ.

Jón Kaldal, sonarsonur Jóns, tók við viðurkenningunni fyrir hönd fjölskyldunnar og aðstandenda.

 

Hér má sjá síðu Heiðurshallar ÍSÍ.

 

Myndir með frétt