Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

23

Heiðursveitingar á 73. Íþróttaþingi ÍSÍ

06.05.2017Framkvæmdastjórn ÍSÍ samþykkti einróma að heiðra eftirtalda einstaklinga með Heiðurskrossi ÍSÍ, æðstu heiðursviðurkenningu ÍSÍ, fyrir frábær störf í þágu íþróttahreyfingarinnar. Þeir eru Árni Þór Árnason, Guðmundur Harðarson og Steinar J. Lúðvíksson.

Árni Þór Árnason er fæddur 31. ágúst 1951. Hann hefur komið víða við innan íþróttahreyfingarinnar. Hann var formaður badmintondeildar Víkings í þrjú ár, formaður badmintonráðs Reykjavíkur í tvö ár, formaður fimleikadeildar KR í þrjú ár, formaður Fimleikasambands Íslands í sex ár, sat í stjórn handknattleiksdeildar Gróttu í sex ár og í landsliðsnefnd kvenna HSÍ sem stjórnarmaður og síðar formaður. Árni Þór sat í varastjórn ÍSÍ 1988-92 og í framkvæmdastjórn ÍSÍ 1992-1996. Á meðan Árni Þór sat í stjórn ÍSÍ sinnti hann einnig ýmsum verkefnum á vegum ÍSÍ, svo sem stjórnarformennsku í Íslenskum getraunum, svo fátt eitt sé nefnt.

Guðmundur Þorbjörn Harðarson er fæddur 10. febrúar 1946. Hann hóf sundæfingar 6 ára gamall og á ferli sínum setti hann fjölda drengja-, unglinga- og Íslandsmeta í sundi. Hann hafði snemma áhuga á þjálfun og árið 1973 flutti hann til Bandaríkjanna þar sem hann sótti framhaldsnám við University of Alabama í Tuscaloosa. Stundaði hann þar jafnframt sundæfingar og sundþjálfun. Guðmundur varð síðar þjálfari með sundliði skólans, einu sterkasta skólaliði í Bandaríkjunum á þessum tíma. Hann starfaði einnig lengi sem aðalþjálfari sundliðs Randers í Danmörku. Guðmundur var landsliðsþjálfari SSÍ upp úr 1970 - 1980, m.a., á Ólympíuleikunum í München 1972 og svo aftur fyrir og á Ólympíuleikunum í Seúl 1988.
Guðmundur hefur verið helsti tæknimaður Íslands á sviði sundsins og íþróttanna frá því hann kom frá námi í BNA. Hefur hann átt sæti í tækninefnd LEN, Sundsambands Evrópu allt þar til á síðasta ári og setið fyrir hönd ÍSÍ í tækninefnd Smáþjóðaleikanna um langt árabil. Hann hefur stuðlað að helstu framförum á sviði reksturs sundlauga enda fyrrum forstöðumaður tveggja stórra sundstaða og einnig látið málefni sundsins innan ÍSÍ til sín taka; setið í stjórn Afrekssjóðs ÍSÍ frá upphafi. Guðmundur hefur afkastað miklu verki í þágu íþróttanna á Íslandi, svo ekki sé minnst á það verk sem hann hefur unnið fyrir sundíþróttina.

Steinar J. Lúðvíksson er fæddur 30. september 1941. Steinar hefur verið virkur í leiðtogastörfum í íþróttahreyfingunni um langt skeið. Hann sat í stjórn Stjörnunnar 1983-85, í stjórn knattspyrnudeildar sama félags 1985-87, var varaformaður HSÍ 1986-89 og sat í stjórn Afreksmannasjóðs ÍSÍ frá 1978-1997. Steinar ritstýrði Íþróttablaðinu árin 1978-86 og hefur ritað tugi bóka, þar á meðal bók um handknattleik á Íslandi og golfíþróttina á Íslandi, svo fátt eitt sé nefnt. Steinar ritstýrði 100 ára afmælisriti ÍSÍ sem bar heitið Íþróttabókin, ÍSÍ – Saga og samfélag í 100 ár og leiddi þar mikið starf ritnefndar bókarinnar.
Steinar hefur yfirgripsmikla þekkingu á sögu íþrótta á Íslandi og hefur skilað ómetanlegu starfi við að tryggja sögulegar heimildir um starf hreyfingarinnar.


ÍSÍ óskar krosshöfunum þremur innilega til hamingju með heiðursviðurkenninguna og þakkar þeim fyrir þeirra góðu störf í þágu íþróttanna.