Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

23

Taktu þátt í Hjólað í vinnuna

03.05.2017

Setningarhátíð Hjólað í vinnuna 2017 fór fram í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardal kl. 8:30 í morgun. Þátttakendum var boðið að hjóla við og þiggja ljúffengt bakkelsi. Flutt voru stutt og hressileg hvatningarávörp. Þeir sem héldu ávörp voru Hafsteinn Pálsson, formaður Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ, Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra, Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar og Steinn Ármann Magnússon, hjólreiðamaður og leikari. Að ávörpum loknum hjóluðu gestir og þátttakendur átakið formlega af stað.

Íþrótta- og Ólympíusamband íslands stendur í fimmtánda sinn fyrir Hjólað í vinnuna, heilbrigðri vinnustaðakeppni um allt land, dagana 3. – 23. maí. Landsmenn hafa tekið átakinu gríðarlega vel í gegnum árin. Einnig má merkja að hjólreiðar allt árið hafa aukist til muna síðan að verkefnið hófst fyrir 15 árum. Meginmarkmið Hjólað í vinnuna er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta.

Meðan á átakinu stendur eru ýmsir leikir í gangi svo sem skráningarleikurinn þar sem allir þátttakendur fara sjálfkrafa í pott og eiga möguleika á að vera dregnir út í Popplandi á Rás 2 alla virka daga. Hjólreiðaverslunin Örninn gefur glæsilega vinninga og þann 23. maí er dregið út glæsilegt reiðhjól að verðmæti 100.000kr. 

Myndaleikur verður í gangi á Instagram, Facebook og á vefsíðu hjoladivinnuna.is þar sem fólk er hvatt til að taka skemmtilegar myndir af þátttöku sinni í verkefninu og merkja myndina með #hjoladivinnuna, með því gætu þátttakendur unnið veglega vinninga frá Nutcase á Íslandi. 

Helstu samstarfsaðilar verkefnisins eru: Embætti landlæknis, umhverfissvið Reykjavíkurborgar, Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn, Rás 2, Landssamtök Hjólreiðamanna, Örninn, Advania og Nutcase á Íslandi.

Fleiri myndir frá setningarhátíðinni má sjá á myndasíðu ÍSÍ.


Myndir með frétt