International Day of Sport for Development and Peace
Í dag er Alþjóðlegur dagur þróunar og friðar í íþróttum eða International Day of Sport for Development and Peace. Dagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur um heim allan 6. apríl ár hvert síðan 2014. Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 2013 var ákveðið að tilnefna 6. apríl í þetta hlutverk, en valið á deginum tengist fyrstu nútíma Ólympíuleikunum sem haldnir voru árið 1896.
Deginum er ætlað að hvetja til félagslegra breytinga, þróunar samfélaga og að efla og varðveita frið.
Alþjóðaólympíunefndin (IOC) styður þetta framtak Sameinuðu þjóðanna og leggur áherslu á hlutverk íþróttasambanda í að stuðla að félagslegum breytingum. Dagurinn veitir Alþjóðaólympíunefndinni tækifæri til að varpa ljósi á hvernig íþróttafólk og Ólympíuhreyfingin geta nýtt sér íþróttir til að stuðla að friði, sátt og þróun og undirstrika kraft Ólympíuleikanna til að stuðla að umburðarlyndi og samstöðu meðal þátttakenda, aðdáenda og fólks um allan heim.