LA eða París 2024?
Tvær borgir keppast nú um að halda Ólympíuleikana árið 2024, Los Angeles og París. Þær borgir sem sóttu upphaflega um að halda leikana eru Búdapest í Ungverjalandi, Hamborg í Þýskalandi, Los Angeles í Bandaríkjunum, París í Frakklandi og Róm á Ítalíu. Nú hafa þrjár borgir dregið sig úr keppninni um að halda leikana, Hamborg, Róm og nú síðast Búdapest.
100 meðlimir Alþjóðaólympíunefndarinnar munu kjósa á milli þess hvort leikarnir verða haldnir í Los Angeles eða París þegar nefndin mun funda í Líma í Perú 13. september 2017.
Borgirnar eru báðar með glæsilegar vefsíður í tengslum við baráttuna um að halda leikana.
Vefsíðu LA má sjá hér.
Vefsíðu Parísar má sjá hér.
Alþjóðaólympíunefndin mun halda áfram nánu samstarfi við fulltrúa þessara borga og bjóða upp á bestu mögulegu þjónustu og aðstoð fram að kosningunni.
Ólympíuleikarnir hafa tvisvar verið haldnir í Los Angeles í Bandaríkjunum, árið 1932 og 1984. París laut í lægra haldi fyrir London í baráttunni um leikana 2012. Ólympíuleikarnir fóru fram í París árið 1900 og 1924.
Spennandi verður að fylgjast með gangi mála í framhaldinu, en niðurstaðan verður hins vegar ekki ljós fyrr en í september 2017. Hægt er að fylgjast með fréttum á heimasíðunni www.olympic.org