Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

21

Hlín heiðruð á ársþingi SSÍ

28.03.2017

Ársþing Sundsambands Íslands (SSÍ) fór fram í fundarsal SÁÁ, Efstaleiti 7, dagana 24.-25. mars síðastliðinn. Þingstörf gengu vel og var mikill einhugur í þingfulltrúum við afgreiðslu tillagna. Kosið var í stjórn sambandsins en hana skipa: Hörður Oddfríðarson formaður, Björn Sigurðsson, Hilmar Örn Jónasson, Jón Hjaltason, Jóna Margrét Ólafsdóttir, Bjarney Guðbjörnsdóttir, Elsa María Guðmundsdóttir, Hrafnhildur Lúthersdóttir og Margrét Gauja Magnúsdóttir. Varamenn eru Eva Hannesdóttir og Helga Sigurðardóttir. 

Á þinginu var undirritaður styrktarsamningur til fjögurra ára við Icepharma en samningurinn gerir SSÍ kleift að klæða landslið sín á samræmdari hátt en áður.
Fimmtán einstaklingar voru sæmdir silfurmerki SSÍ og átta gullmerki SSÍ fyrir góð störf í þágu sundíþróttarinnar.  

Hafsteinn Pálsson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ var fulltrúi sambandsins á þinginu. Hafsteinn ávarpaði þingið og sæmdi Hlín Ástþórsdóttur fráfarandi varaformann SSÍ Gullmerki ÍSÍ fyrir góð störf í þágu sundíþróttarinnar. Hlín er búin að starfa lengi í sundhreyfingunni, hefur átt sæti í stjórn SSÍ í 16 ár, þar af 11 ár sem varaformaður. Meðfylgjandi mynd er af Hlín og Hafsteini við þetta tækifæri.