Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

23

Lyfjaeftirlit mikilvægt

27.03.2017

Óhætt er að segja að eitt heitasta umræðuefnið í íþróttaheiminum í dag sé um lyfjaeftirlit og lyfjamisnotkun. Alþjóðaólympíunefndinni og alþjóðasamböndum þess er umhugað um að keppni íþróttafólks sé á jafnréttisgrundvelli og enginn hafi hag af misnotkun árangursbætandi efna. Lyfjaeftirlit innan íþróttaheimsins hefur vaxið að umfangi á undanförnum árum og gegnir Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunin WADA forystuhlutverki í þessum málum.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan að upp komst um lyfjamisnotkun rússnesks íþróttafólks og fylgdarliðs á síðasta ári. Í júní 2016 fór fram Leiðtogafundur (Olympic Summit) með fulltrúum víðsvegar að úr heiminum. Þar var lögð aukin áhersla á lyfjaprófun í aðdraganda Ólympíuleikanna í Ríó til viðbótar við þau próf sem fyrirhuguð voru á vegum alþjóðlegra sérsambanda. Í tengslum við 2020 áætlun Alþjóðaólympíunefndarinnar var sérstakur rannsóknarsjóður stofnaður sem styrkir rannsóknir tengdar baráttunni gegn lyfjamisnotkun í íþróttum.

Baráttan gegn lyfjamisnotkun er ekki verkefni einstaklinga eða einstakra hópa. Ef árangur á að nást þarf víðtæka samvinnu á heimsvísu, bæði af hálfu íþróttahreyfingarinnar og stjórnvalda allra landa. Nauðsynlegt er að allir hagsmunaaðilar geri allt sem í þeirra valdi stendur til að vinna gegn misnotkun á árangursbætandi efnum og aðferðum.

Lyfjaeftirlit ÍSÍ sér um lyfjaprófanir á íþróttafólki innan vébanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands allt árið um kring, á æfingum, í keppnum og utan keppni. Lyfjaeftirlitið sér um fræðslu, meðal annars til sambandsaðila ÍSÍ, íþróttafélaga, menntaskóla og háskóla og sér um menntun eftirlitsaðila. Lyfjaeftirlit ÍSÍ fylgist náið með þróun og framvindu í þessum málaflokki. Nálgast má nýjustu fréttir og fræðsluefni frá Lyfjaeftirliti ÍSÍ á vefsíðunni www.lyfjaeftirlit.is.

ÍSÍ, Íþróttabandalag Reykjavíkur og Háskólinn í Reykjavík stóðu fyrir ráðstefnu, í tengslum við Reykjavíkurleikana (RIG) 2017 í janúar sl., um lyfjamál og fæðubótarefni. Þar voru flutt áhugaverð erindi sérfræðings í íþróttanæringarfræði, fyrrum keppanda í hjólreiðum sem misnotaði árangursbætandi efni um langt skeið og rannsóknarblaðamanns sem skoðað hefur lyfjamisferli i íþróttaheiminum í mörg ár. Allt sögur sem sýndu okkur hversu falið þetta vandamál getur verið og hve nauðsynlegt er að allir haldi vöku sinni varðandi lyfjamál og fæðubótarefni í íþróttum þar sem markaðsráðandi öfl bera ekki allaf hag neytandans fyrir brjósti.

Aðgerðir gegn lyfjamisnotkun verða sífellt markvissari og í dag mega lyfjaeftirlitsstofnanir geyma sýni í tíu ár eftir að þau eru tekin. Því er hægt að dæma keppendur fyrir lyfjamisnotkun allt að tíu árum eftir misnotkunina. Þetta er gert í samvinnu við Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunina - WADA. Að gefnu tilefni skal þó bent á að íþróttafólk ber sjálft alltaf ábyrgð á því sem finnst í lífsýni viðkomandi. Því þarf hver og einn að huga vel að innihaldslýsingum á öllu sem neytt er og bera saman við bannlista WADA.

Ég vil hvetja allt íþróttafólk til að vera góðar fyrirmyndir, innan vallar sem utan og hafa ávallt rétt við.