Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
30

Glæsileg ráðstefna um stjórnun íþróttafélaga

27.03.2017

Ráðstefnan Að stjórna íþróttafélagi – Ekkert mál? fór fram í Öskju í Háskóla Íslands í dag. Aðgangur var ókeypis en færri komust að en vildu því uppselt var á ráðstefnuna. Um 150 manns voru skráðir og vegna aðsóknar þurfti að færa hana úr upprunalega auglýstu húsnæði í Odda yfir í Öskju eins og upphaflega var gert ráð fyrir. Einhver forföll urðu þó á síðustu stundu þar sem ekki var flogið innanlands. 

Markmið ráðstefnunnar var að efla samstarf háskólasamfélagsins og þeirra aðila sem koma að starfi íþróttafélaga og fá fram umræðu um ýmis málefni og álitamál sem varða stjórnun og rekstur þeirra.

Setning - Samstarf á sviði íþrótta; hverju skilar það og til hverra? Guðbjörg Linda Rafnsdóttir aðstoðarrektor vísinda við HÍ setti ráðstefnuna og nefndi að ráðstefnan væri liður í að efla samstarf HÍ og ÍSÍ. Hún sagði m.a. að flest fræðasvið Háskólans kæmu að málefnum íþrótta að einhverju leyti og það sýni hversu þverfræðilegt viðfangsefnið er.

Fyrsti hluti ráðstefnunnar snéri að fjármála og lagaumhverfi ásamt rekstri íþróttafélaga. Umfang og starfsemi íþróttafélaga hefur vaxið mjög á undanförnum árum og eru mörg félög rekin eins og nútíma fyrirtæki. Velta félaganna er mikil, starfsmönnum fer fjölgandi og eru þeir ýmist launþegar eða verktakar. Félögin greiða ýmis opinber gjöld, skila skattauppgjöri o.s.frv. Hin hefðbundna gamla félagssamtaka umgjörð félaganna er á undanhaldi og er öflun fjár til starfseminnar veigamikill þáttur í starfi og rekstri íþróttafélaga.

Fyrstur á svið var Ásmundur G. Vilhjálmsson aðjúnkt við Viðskiptafræðideild HÍ. Hans erindi var um skatta og skyldur íþróttafélaga. Ásmundur talaði um að íþróttafélög væru ekki tekjuskattsskyld enda litið svo á að íþróttafélög stundi ekki eiginlegan atvinnurekstur. Hins vegar ber þeim að færa bókhald og halda eftir og skila til ríkisins staðgreiðslu skatta, útsvari og tryggingagjaldi eins og aðrir launagreiðendur. Vandamálið verktaki- launþegi hefur verið landlægt í íþróttahreyfingunni þar sem ákveðin tilhneiging hefur verið að ráða menn frekar sem verktaka en launþega.

Næstur á svið var Jón Karl Ólafsson, formaður Ungmennafélagsins Fjölnis. Erindi hans var um rekstur íþróttafélaga og spurningunni hvort íþróttafélög séu fyrirtæki eða félagasamtök var velt upp. Jón Karl talaði um að í grunninn væri alltaf verið að reka félagasamtök, sem veita þjónustu til nærumhverfis í nánu samstarfi við sveitarfélög sem greiða stóran hluta rekstrarkostnaðar við ungmennastarf. Hann talaði um breytingar sem gerðar voru á rekstri Ungmennafélagsins Fjölnis sem m.a. fólust í að fjármál félagsins eru nú unnin miðlægt á skrifstofu félagsins og formaður og framkvæmdastjóri félagsins þeir einu sem geta skuldbundið félagið í umboði aðalstjórnar. Fjölnir er ungt félag með 3.500 iðkendur, 200 sjálfboðaliða og 150 starfsmenn í mismunandi störfum. Í félaginu eru 9 deildir sem veltu á síðasta ári 670 milljónum króna eða eins og rekstur meðalstórs íslensks fyrirtækis.

Annar hluti ráðstefnunnar fjallaði um ábyrgð íþróttafélaga og stjórnarmanna hvað varðar tryggingar.

Fyrst til að fjalla um málið var Ása Ólafsdóttir, dósent við Lagadeild HÍ. Erindi hennar var um ábyrgð á slysum við íþróttaiðkun, meðal annars tók hún fyrir beinbrot og augnskaða. Ása talaði um að við slys þá skipti máli hvort að bótaréttur hafi skapast og hver sá réttur sé? Hefur einhver valdið bótaskyldu tjóni, t.d. annar íþróttamaður, þjálfari eða húseigandi. Eru íþróttamenn undir 16 ára nægilega tryggðir því að þau eru háðir því að foreldrarnir séu með ábyrgðartryggingu annars eru ekki önnur úrræði í boði fyrir þau? Eru íþróttamenn nægilega tryggðir með hliðsjón af aukinni þekkingu sem safnast hefur saman á undanförnum árum vegna langtímaafleiðingar íþrótta? Hver er ábyrgð félaga eða sérsambanda?

Næstur var Jón Finnbogason, lögmaður og formaður ÍTK. Hann talaði um ábyrgð stjórnenda íþróttafélaga og eigenda íþróttamannvirkja vegna óhappa iðkenda. Íþróttamannvirkin eru byggð af sveitarfélögunum og afhent íþróttafélögunum til afnota og ber íþróttafélaginu að sjá til þess að eðlilegu viðhaldi sé sinnt. Benti Jón á að sá sem stendur fyrir íþróttastarfinu eða umráðamaður aðstöðu getur orðið bótaskyldur ef aðbúnaður er ófullnægjandi og slys verður vegna þess. Þá benti hann á að í reglunni um vinnuveitendaábyrgð ber vinnuveitandi ábyrgð á tjóni sem starfsmenn hans valda með ólögmætum og saknæmum hætti og gæti sú ábyrgð fallið á stjórnendur félaga. Hann reifaði nokkra dóma máli sínu til stuðnings.

Þriðji hluti ráðstefnunnar fjallaði um mannauð. Með auknum umsvifum í íþróttastarfinu eykst þörfin fyrir meiri mannauð og ekki síst fleiri sjálfboðaliða. Markvissum aðferðum hefur verið beitt til að styrkja og efla þátttöku samfélagsþegnanna í sjálfboðaliðastarfi. Íþróttafélögin hafa þróað ákveðið verklag og skipulag til að vekja áhuga fólks á því að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi á þeirra vegum.

Steinunn Hrafnsdóttir, dósent Félagsráðgjafadeildar HÍ, steig á svið með erindið Stjórnun og hvatning sjálfboðaliða hjá íþróttafélögunum. En hvað hvetur fólk til að vinna sjálfboðastarf? Flestir vinna sjálfboðastarf vegna þess að þeim finnst það skemmtilegt, því finnst það gera gagn, hittir fólk og eignast vini. Steinunn sagði mikilvægt að halda í góða og reynda sjálfboðaliða, það þurfi að gera sjálfboðastarfið sýnilegt, lýsa verkefnum sjálfboðaliða og þeim tíma sem starfið tekur. Það er mikilvægt að halda vel utan um sjálfboðaliða og veita þeim viðurkenningu fyrir sín störf. 

Næstur á svið var Þráinn Hafsteinsson, íþróttastjóri ÍR. Hann talaði um virkjun, verkefni og viðurkenningu sjálfboðaliða í íþróttum. Í erindi Þráins fjallaði hann um starf sjálfboðaliðans í starfi frjálsíþróttadeildar ÍR þar sem  320 sjálfboðaliðar voru starfandi árið 2016. Hlutverk sjálfboðaliðanna er að stjórna deildinni, framkvæma mótin, framkvæma hlaupin, vinna að fjáröflun og starfa sem fararstjórar eða liðsstjórar á mótum. Unnið er markvisst innan deildarinnar í að fá sjálfboðaliða til starfa með því að kynna verkefnin á foreldrafundum og lögð er áhersla á að í fyrstu séu verkefnin smá, viðráðanleg og skýrt afmörkuð. Sjálfboðaliðinn skráir sig til starfa á heimsíðu deildarinnar og fær úthlutað afmörkuðu verkefni. Þráinn lagði mikla áherslu á mikilvægi þess að þakka sjálfboðaliðum fyrir með tölvupóstum, fréttum á heimasíðu, viðurkenningum frá deildinni og svo væri félagið með sjálfboðaliðabikar sem er afhentur eftir hvert mót.

Fjórði og síðasti hluti ráðstefnunnar snérist um íþróttauppeldi. Þátttaka barna og ungmenna í starfi íþróttafélaga hefur aukist mjög á undanförnum árum og fer hluti uppeldis þeirra fram í íþróttafélögum. Í ljósi þess er mikilvægt að hjá íþróttafélögum starfi t.d. menntaðir þjálfarar og sjúkraþjálfarar sem hafa þekkingu á þjálffræðilegum- sem og fyrirbyggjandi þáttum íþróttaþjálfunar og endurhæfingar.

Fyrst á svið var Sigríður Lára Guðmundsdóttir, dósent við Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild HÍ. Hún talaði um álag, svefn og hvíld og áhrif þessarra þátta á líkama og sál. Sigríður Lára ræddi um viðbrögð líkamans við mismunandi æfingaálagi og margvíslegar birtingamyndir ofþjálfunar. Þá talaði hún um endurheimt og þá þætti sem skipta máli í umhverfi íþróttamannsins. Svefn er sérstaklega mikilvægur fyrir íþróttafólk þar sem vöxtur og viðhald líkamans nær hámarki í svefni og hefur svefnleysi neikvæð áhrif á íþróttamanninn á margvíslegan hátt. 

Síðasti fyrirlesari dagsins var Árni Árnason, dósent við námsbraut í sjúkraþjálfun í HÍ. Erindi hans bar heitið „Hlutverk sjúkraþjálfara innan íþróttafélaga“. Hann fjallaði um starf sjúkraþjálfara innan íþróttafélaga á Íslandi, ábyrgðir og skyldur, samninga, umfang starfsins og hlutverk nema í sjúkraþjálfun liða. Umfang starfsins fer að mestu eftir aldri iðkenda en fáir sjúkraþjálfarar koma að þjálfun yngri leikmanna. Hlutverk sjúkraþjálfaranna er ólíkt en þeir koma m.a. að meðhöndlun, greiningu, forvörnum, sjá um upphitun og niðurlag æfinga. Forgangsröðun og fjármagn ræður að mestu umfangi sjúkraþjálfunar innan íþróttafélaga. Árni benti á að það þekkist að nemar í sjúkraþjálfun taki að sér lið og velti fyrir sér hvort að forsvarsmenn félaga gerðu sér grein fyrir þeirri þekkingu sem neminn hefði til starfsins og hver bæri ábyrgð á því ef nemar gerðu mistök í starfi. 

Eftir hvern hluta ráðstefnunnar gafst ráðstefnugestum tækifæri á að spyrja fyrirlesarana og sköpuðust skemmtilegar umræður um hvern hluta fyrir sig. Ráðstefnan var tekin upp og var sýnt beint frá henni á netinu og fylgdis mikill fjöldi með. Upptökur af ráðstefnunni verða geymdar á vimeó síðu ÍSÍ og verða tilbúnar bráðlega.

Um ráðstefnuslit voru um kl.16:30, en það gerðu þau Dr. Erlingur Jóhannsson, Dr. Kristín Briem frá HÍ og Ragnhildur Skúladóttir frá ÍSÍ sem sitja í samstarfshópi HÍ og ÍSÍ ásamt Andra Stefánssyni. 

Jón Örn Guðbjartsson, sviðsstjóri markaðsmála hjá Háskóla Íslands, var ráðstefnustjóri og stóð sig með sóma í því hlutverki.

Fleiri myndir má sjá á myndasíðu ÍSÍ.

Myndir með frétt