Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
21

Heiðranir á ársþingi USÚ

21.03.2017

Ársþing Ungmennasambandsins Úlfljóts fór fram í gistiheimilinu Hoffelli 16. mars. Þingið var ágætlega sótt, 29 fulltrúar af 41 mættu frá flestum félögum. Tvær tillögur frá stjórn lágu fyrir þinginu. Fyrst má nefna hvatningu til ungmennafélaga til að fjölmenna á Landsmót UMFÍ 50+ í Hveragerði 23.-25. júní nk. og á unglingalandsmót UMFÍ á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina. Við þessa tillögu var bætt á þinginu, og felur hún því einnig í sér hvatningu til að taka þátt í almenningsíþróttaverkefnum á vegum UMFÍ og ÍSÍ.

Þá voru samþykktar breytingar á lögum USÚ.  
Stjórn USÚ var endurkjörin en hana skipa: Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður, Kristján Örn Ebenezarson, ritari og Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri. Á þinginu kom fram tillaga um að rétt væri að kjósa tvo varamenn stjórnar. Stungið var upp á Matthildi Ásmundardóttur, Sindra, og Ástu Steinunni Eiríksdóttur, Mána, og var það samþykkt.

Garðar Svansson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ var fulltrúi ÍSÍ á þinginu. Hann ávarpaði þingið og afhenti þeim heiðurshjónum Guðrúnu Ingólfsdóttur og Zophonías Torfasyni Silfurmerki ÍSÍ fyrir þeirra góðu störf í þágu frjálsíþrótta.

Kristinn Justiniano Snjólfsson var útnefndur Íþróttamaður USÚ 2016 auk þess sem þrír ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ fyrir árið 2016. Nánar má lesa um þessar viðurkenningar á vefsíðu USÚ, www.usu.is.  Þar er einnig hægt að lesa skýrslu stjórnar USÚ fyrir árið 2016.