Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22

Yfirlýsing frá Lárusi L. Blöndal, forseta ÍSÍ

10.01.2017

Með vísan í viðtal við mig á Stöð2 í gærkvöldi varðandi úthlutun úr Afrekssjóði og umræðna sem um það hefur sprottið í dag vil ég koma eftirfarandi á framfæri.

Mér finnst leitt að orð mín hafi misskilist og að einhverjum finnist ég hafa haft í hótunum við þau tvö sambönd sem lýstu yfir óánægju með úthlutun Afrekssjóðs ÍSÍ. Það var alls ekki meining mín og vil ég biðja þá hina sömu afsökunar á því að orða hug minn ekki betur. 

Ég var spurður að því hvort þau gætu vænst þess að fá „stærri bita af kökunni” þegar úthlutað verður úr sjóðnum síðar á árinu og svaraði ég því þannig að þessar athugasemdir út af fyrir sig myndu ekki leiða til þess heldur fengju þau úthlutun í samræmi við þær reglur sem þá gilda.

Eins og ítarlega hefur verið kynnt á liðnum mánuðum þá stendur yfir endurskoðun á reglum Afrekssjóðs ÍSÍ. Næsta úthlutun úr sjóðnum mun taka mið af þeim reglum og að sjálfsögðu mun það gilda um alla þá sem sækja munu um  til sjóðsins. Tilvísun til reglna sjóðsins átti því ekki að skiljast sem hótun til þessara tveggja sérsambanda sem athugasemdir gerðu.

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ

Vefslóð á umrætt viðtal er hér.