Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
23

Fararstjórafundur vegna Ólympíuhátíðar Evrópuæskunnar

09.12.2016

Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar verður haldin í Erzurum í Tyrklandi í febrúar. Nú á dögunum fór fram fararstjórafundur vegna leikanna. Á fundinum var farið yfir helstu atriði er snúa að leikunum og dagskrá þeirra. Auk þess að mótshaldarar fóru ítarlega yfir helstu atriði er snúa að þátttöku á leikunum gafst fararstjórum kostur á að skoða helstu mannvirki sem notuð verða meðan á leikunum stendur. Erzurum er bær í austurhluta Tyrklands með um 300 þúsund íbúa. Afar góð aðstaða er fyrir hendi í þeim greinum sem keppt verður í á leikunum. Mörg af mannvirkjunum voru byggð fyrir vetrarleika stúdenta sem haldnir voru í bænum árið 2011. Þátttakendur á leikunum í febrúar munu dvelja í íbúðabyggingum sem tilheyra háskóla bæjarins.

Ísland mun eiga sem fyrr keppendur á leikunum. Að þessu sinni mun Ísland eiga keppendur í alpagreinum, skíðagöngu, listskautum og á snjóbretti.

Fulltrúar ÍSÍ á fundinum voru þau Örvar Ólafsson starfsmaður Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ og Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ. Örvar verður aðalfararstjóri íslenska hópsins á leikunum en Líney er formaður eftirlitsnefndar með framkvæmd leikanna á vegum evrópsku Ólympíunefndanna. Meðfylgjandi eru nokkrar svipmyndir frá fundinum í Erzurum og mannvirkjum leikanna.

Myndir með frétt