Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

30

Sýnum karakter vefsíðan

18.11.2016

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) standa saman að vefsíðunni Sýnum karakter. Vefsíðan er  aðallega ætluð þjálfurum og íþróttafélögum.

Í dag kom inn nýr pistill á vefsíðuna eftir Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkmann í fótbolta. Pistill Hannesar ber heitið „Að snúa nánast tapaðri stöðu“ og segir í stuttu máli frá markmiðasetningu Hannesar frá því að hann spilaði í annarri deild á Íslandi og þangað til hann spilaði í 8. liða úrslitum á EM í fótbolta sl. sumar. Lærðu af þeim besta og lestu skemmtilega skrifaðan pistil frá Hannesi hér.

Verkefnið Sýnum karakter er hugsað sem verkfæri fyrir þjálfara til að hlúa að og efla andlega og félagslega þætti hjá börnum og unglingum. Mikilvægi þjálfarans er sett í fókus og einblínt með nýstárlegum hætti á þann jákvæða ávinning sem hlýst af íþróttaiðkun umfram líkamlega, s.s. áhugahvöt, félagsfærni, sjálfstraust, einbeitingu, leiðtogahæfni og markmiðasetningu. Á vefsíðu Sýnum karakter eru nú þegar hinar ýmsu greinar og viðtöl við þjálfara og afreksíþróttafólk þar sem helsta umfjöllunarefni er efling andlegra og félagslegra þátta í gegnum þjálfun. 

Verkefnið Sýnum karakter byggir á Framtíðinni, leiðarvísi í þjálfun barna og ungmenna sem dr. Viðar Halldórsson hefur þróað í mörg ár með það fyrir augum að finna styrkleika íþróttafólks. Tilgangur Framtíðarinnar er að stuðla að faglegu starfi innan félaga með því að stefna að hámarksárangri í þjálfun hugarfarslegra og félagslegra þátta. Viðar er lektor í félagsfræði við Háskóla Íslands og einn helsti sérfræðingur landsins á sviði íþrótta. Hann hefur unnið eftir aðferðafræðinni með einstökum félögum og landsliðum í íþróttum. Dr. Hafrún Kristjánsdóttir, íþróttasálfræðingur og sviðsstjóri á íþróttasviði Háskólans í Reykjavík, og dr. Viðar Halldórsson eru höfundar að efninu í verkefninu Sýnum karakter. 

Verkfærakistan á vefsíðu Sýnum karakter inniheldur efni sem ætlað er að stuðla að faglegu starfi innan félaga með því að stefna að hámarksárangri í þjálfun hugarfarslegra og félagslegra þátta.

ÍSÍ og UMFÍ hvetja sambandsaðila, héraðssambönd og íþróttafélög til að skoða vefsíðuna Sýnum karakter.

Vinnum saman og Sýnum karakter! 

Myndir með frétt