Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
4

Afhjúpun minnisvarða um afrek Vilhjálms

09.11.2016

Þann 5. nóvember sl. var minnisvarði um afrek Vilhjálms Einarssonar á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu árið 1956 afhjúpaður með athöfn. Minnisvarðinn ber heitið „Silfurstökkið “og var reistur á flötinni fyrir framan Vilhjálmsvöll. Tilefnið er það að þann 27. nóvember nk. verða 60 ár liðin frá því Vilhjálmur Einarsson stökk 16.25 metra í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourne. Þetta stökk var nýtt Ólympíumet sem stóð í tvo klukkutíma en þá bætti Brasilíumaðurinn Ferreira Da Silva það með stökki sínu upp á 16.35 metra í fjórðu tilraun. Vilhjálmur endaði þar með í öðru sæti og varð fyrsti Íslendingurinn til að komast á verðlaunapall á Ólympíuleikum. Þetta var frábær frammistaða hjá Vilhjálmi og er hann eini íslenski einstaklingurinn sem hefur náð öðru sæti í frjálsíþróttum á Ólympíuleikum. Minnisvarðinn sýnir í fullri stærð lengd stökksins.

Viðar Sigurjónsson, skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri, sótti viðburðinn fyrir hönd ÍSÍ og flutti ávarp. Viðar færði Vilhjálmi og forkólfunum að þessu verkefni, Íþróttafélaginu Hetti og sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði, sitthvorn blómvöndinn frá ÍSÍ af þessu tilefni.

Minnisvarðinn er reistur að frumkvæði Íþróttafélagsins Hattar og Fljótsdalshéraðs. Verkið er útfært af Vilhjálmi í samvinnu við MSV og VHE. Eftirtalin fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök styrktu verkefnið ásamt Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands: Fljótsdalshérað, Íþróttafélagið Höttur, MSV stál & vélar, VHE vélaverkstæði, Rotarý á Egilsstöðum, Hitaveita Egilsstaða og Fella, Efla verkfræðistofa, Menntaskólinn á Egilsstöðum, Betra bak, Brúnás innréttingar, Vaskur, Keiluhöllin, Hamborgarafabrikkan, MVA, Islingua, Jónsmenn, PES vefum og hönnum, Alcoa, Ungmenna og íþróttasamband Austurlands og Ungmennafélag Íslands.

Myndir með frétt