Golfmót SÍÓ
Samtök íslenskra ólympíufara (SÍÓ) hafa staðið fyrir ýmsum viðburðum í gegnum árin sem gefa félagsmönnum tækifæri á að hittast og ræða sín í milli, deila myndum og öðru því efni sem tengist þátttöku á Ólympíuleikunum. Sérhver íþróttamaður sem hefur tekið þátt í Ólympíuleikum fyrir hönd Íslands verður sjálfkrafa aðili að SÍÓ, en SÍÓ eru aðilar að Heimssamtökum Ólympíuþátttakenda.
SÍÓ stóðu fyrir golfmóti þann 23. júní sl. en fengu aðstoð frá Golfsambandi Íslands og Nesklúbbinum við framkvæmd. Góð þátttaka var á mótinu. Eygló Ósk Gústafsdóttir, Íþróttamaður ársins 2015, mætti til leiks og stóð sig með prýði. Lið badmintonmanna vann mótið í ár en það skipuðu Árni Þór Hallgrímsson (Barcelona 1992), Broddi Kristjánsson (Barcelona 1992), Elsa Nielsen (Barcelona 1992, Atlanta 1996) og Ragna Ingólfsdóttir (Peking 2008, London 2012).
Myndir frá deginum má sjá á myndasíðu ÍSÍ.