Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

2

Ríó 2016 - Vígsluathafnir í Ólympíuþorpinu

04.08.2016
Fjölmargir viðburðir eiga sér stað í Ólympíuþorpinu fram að setningu leikanna þann 5. ágúst n.k.  Fyrr í vikunni var Friðarveggur (Truce Wall) vígður í Ólympíuþorpinu, en um er að ræða vegg sem hefur tilvísun í Ólympíuleikana til forna.  Á þeim tíma tíðkaðist að leggja öll vopn til hliðar þegar Ólympíuleikar voru á dagskrá og kepptu óvinir í íþróttum á leikunum í stað þess að berjast.  Í dag hefur þessi veggur meiri friðarboðskap í stað vopnahlés og er Alþjóðaólympíunefndin þannig að höfða til friðarboðskaps Ólympíuhugsjónarinnar. 
 
Í dag var svo vígður minningarreitur (Place of mourning) þar sem hugmyndin er að gefa þátttakendum á Ólympíuleikunum stað til að minnast látinna ástvinna og jafnframt að heiðra minningu þeirra sem hafa látist í tengslum við Ólympíuleikana.  Thomas Bach, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC) minntist ísraelska hópsins sem lét lífið á leikunum 1972 í Munchen og eins Georgíumannsins Nodar Kumaritashvili sem lést á leikunum 2010 í Vancouver, á lokaæfingu fyrir keppni í sleðabruni.
 
Minningarreiturinn hefur að geyma tvo steina frá hinni fornu borg Olympiu, í Grikklandi, til að búa til táknræna tengingu við fæðingarstað Ólympíuleikanna.
 
Á myndunum má sjá Thomas Bach, forseta IOC, ávarpa viðstadda á þessum tveimur viðburðum.
 

Myndir með frétt