Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Setningarhátíð Vetrarólympíuleika ungmenna í Lillehammer

12.02.2016

Vetrarólympíuleikar ungmenna verða settir í kvöld í Lillehammer í Noregi. Líkt og þegar Ólympíuleikarnir voru settir í Lillehammer árið 1994 fer setningarhátíðin fram við skíðastökksmannvirkið sem gnæfir yfir bænum. Ólympíueldurinn sem mun loga meðan á leikunum stendur var kveiktur í Ólympíu hinni fornu og hefur verið á ferð um Noreg undanfarnar vikur. Ólympíueldinn mun Ingrid Alexandra prinsessa Noregs tendra en Marit Björgen Ólympíuverðlaunahafi færir henni logann. Auk 1.100 keppenda og um 3.000 sjálfboðaliða er búist við um 13.000 áhorfendum en uppselt er á viðburðinn. Bein útsending er á NRK 1 frá setningunni sem hefst kl. 18.00 að íslenskum tíma. Einnig er hægt að fylgjast með setningarhátíðinni á rás Alþjóðaólympíunefndarinnar www.youtube.com/Olympics.

Fánaberi íslenska hópsins við setningarhátíðina verður Bjarki Guðjónsson keppandi í alpagreinum.