Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

21

ÍSÍ úthlutar afreksstyrkjum – Rúmlega 140 m.kr. til úthlutunar

29.12.2015

Framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands samþykkti, fimmtudaginn 10. desember 2015,  tillögur stjórnar Afrekssjóðs ÍSÍ að úthlutun fyrir árið 2016.  Styrkveitingar ÍSÍ til sambandsaðila nema nema samtals 142 milljónum króna.

Til Afrekssjóðs ÍSÍ bárust umsóknir frá 27 sérsamböndum og einni íþróttanefnd ÍSÍ.  Hljóta  öll þessi sambönd styrk vegna sinna landsliðsverkefna, þótt um misháar upphæðir sé að ræða.  Sótt var um styrki til sjóðsins vegna verkefna 86 einstaklinga og er aðeins hluti þeirra verkefna styrktur, eða verkefni 22 íþróttamanna.  Rétt er að leggja áherslu á að það eru sérsambönd sem hljóta styrki vegna verkefna tilgreindra íþróttamanna, en ekki íþróttamennirnir sjálfir.  Þannig eru styrkir sjóðsins til sérsambanda vegna verkefna íþróttamanna fyrst og fremst hugsaðir vegna kostnaðar við þátttöku í mótum og keppnum og undirbúnings vegna þeirra.

Þrátt fyrir að úthlutað sé að þessu sinni 142 milljónum króna, sem er töluverð hækkun frá styrkjum undanfarinna ára, er enn langt í land í að styrkir ÍSÍ standi undir öllu afreksstarfi sérsambandanna.  Nýverið gaf ÍSÍ út skýrslu þar sem greindur var kostnaður við afreksíþróttastarf og þar kom fram að til þess að standa nærri þeim þjóðum sem við berum okkur jafnan saman við þyrfti árlega að vera hægt að úthluta um 650 m.kr. til afreksstarfs á Íslandi.  Þær upphæðir eru varlega áætlaðar og nú á undanförnum vikum hafa samanburðarþjóðir aukið enn frekar í sínar úthlutanir.

Framlag ríkisins til Afrekssjóðs ÍSÍ fyrir árið 2016 hækkar um 30 m.kr. frá síðasta ári og er 100 m.kr.   Síðustu tvö ár hefur þessi upphæð verið 70 m.kr. en árið 2013 var þessi upphæð 55 m.kr. og árið 2012 var framlag ríkisins 34,7 m.kr. auk þess sem að styrk vegna undirbúnings fyrir Ólympíuleikana í London að upphæð 25 m.kr. var úthlutað til sérsambanda ÍSÍ í gegnum Afrekssjóð ÍSÍ.  Afrekssjóður ÍSÍ er annars fjármagnaður með hlutdeild úr tekjum íþróttahreyfingarinnar frá Íslenskri Getspá samkvæmt ákvörðun Íþróttaþings ÍSÍ.  Heildartekjur Afrekssjóðs ÍSÍ fyrir árið 2016 eru áætlaðar 140 m.kr.

Þegar skoðaðar eru umsóknir sérsambandanna til Afrekssjóðs ÍSÍ, sést að kostnaðaráætlanir þeirra 28 sambandsaðila sem sóttu um styrk vegna íþróttamanna, liða og verkefna til Afrekssjóðs ÍSÍ 2016 nema rúmlega 1.285 m.kr. og líkt og áður hafa þessar tölur aldrei verið hærri.  Framlag Afrekssjóðs ÍSÍ til sérsambanda/íþróttanefnda ÍSÍ er kr. 142 m.kr. og nemur um 11% af kostnaðaráætlunum sem er svipað hlutfall og á síðasta ári.

Á undanförnum árum hefur stjórn Afrekssjóðs ÍSÍ rætt ýmsar breytingar og horft til þeirra áherslna sem aðrar þjóðir og rannsóknir hafa sýnt fram á að skipti málí í afreksstarfi.  Framkvæmdastjórn ÍSÍ gaf út nýja reglugerð fyrir sjóðinn í lok nóvember sl. og tóku skilgreiningar á styrkleikaflokkum og viðmiðum breytingum auk þess sem að styrkupphæðir eru ekki lengur festar í reglugerð heldur háðar tillögum sjóðsstjórnar.   Þannig er ekki lengur verið að veita A, B og C styrki þótt að styrkleikaflokkun eigi sér stað í meðferð sjóðsins.  Um einn styrk er að ræða til hvers sérsambands/íþróttanefndar ÍSÍ og lögð áhersla á að faglegt afreksstarf eigi sér stað hjá sérsamböndum/íþróttanefndum ÍSÍ.  Með þessu er verið að koma til móts við sérsambönd og gefa stjórn sjóðsins möguleika horfa meira í afreksstefnur sérsambanda, útbreiðslu og afreksstig.  Þá er opnað fyrir það í reglugerðinni að hægt sé að greiða sem framfærslustyrk hluta af styrkupphæð sem skilgreind er vegna verkefna einstaklinga.  Þar er lögð áhersla á að slíka greiðslur sé launþegagreiðslur þar sem slíkt skapar lýðréttindi fyrir íþróttafólkið. 

Sjóðsstjórnin leggur áfram áherslu á að efla þjónustu fagteymis og fræðslu fyrir íþróttamenn sérsambanda.  Þannig hljóta sérsambönd styrk vegna verkefna sem snúa að fræðslu og fyrirbyggjandi aðgerðum frá skilgreindu fagteymi sérsambands.    Í reglugerð Afrekssjóðs ÍSÍ er fjallað um kröfur um afreksstefnur sérsambanda.  Þannig er lögð áhersla á að öll sérsambönd móti sér stefnu í afreksíþróttum sem hljóti umfjöllun og samþykki á sérsambandsþingi eða formannafundi sérsambands.  Flest sérsambönd hafa mótað sér slíka stefnu og/eða eru að vinna að henni og endurbótum á núverandi stefnu.  Sérsambönd hafa skilað inn áætlun um frekari vinnu við stefnumótun sambandsins og liggur fyrir að hjá mörgum þeirra þarf að samþykkja nýja stefnu á ársþingi í vor.  Eru styrkveitingar ársins tengdar þeirri vinnu og með fyrirvara um að afreksstefna viðkomandi sérsambands hljóti samþykki sérsambandsþings. Á árinu eru margir stórviðburðir á dagskrá eins og EM í handknattleik karla sem og Ólympíuleikar og Ólympíumót fatlaðra í Ríó.  Vorið framundan er mjög mikilvægt keppendum í íþróttagreinum þar sem lágmörk og staða á heimslista ræður því hverjir vinna sér inn keppnisrétt á leikana í Ríó og verður spennandi að fylgjast með árangri íslenskra keppenda á næstu misserum.

Hæstu styrki fyrir árið 2016 hljóta þau sambönd sem eru að taka þátt í lokamótum stórmóta eða hafa tryggt sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Ríó 2016.  Þannig hlýtur Handknattleikssamband Íslands styrk að upphæð 28 m.kr., Sundsamband Íslands tæpar 15 m.kr. og Frjálsíþróttasamband Íslands 13,4 m.kr.  Þá hlýtur Körfuknattleikssamband Íslands 11,4 m.kr. og Knattspyrnusamband Íslands 8,9 m.kr., um er að ræða styrki vegna liða sem taka þátt í forkeppni stórmóta, en þessi tvö síðasttöldu sambönd hafa átt lið í lokakeppni stórmóta á síðustu árum. 

Þessi fimm sérsambönd hljóta rúmlega helming þeirrar upphæðir sem veitt er að þessu sinni og þau 10 sérsambönd sem hljóta hæstu styrkina fá samanlagt um 75% af úthlutun sjóðsins.

Í þessum tölum er verið að tala um heildarúthlutun til viðkomandi sérsambands en hún skiptist síðan niður á verkefni liða/hópa sem og einstaklinga og er nánari útfærsla skilgreind í úthlutunarbréfi til sérsambanda og í samningum sem gerðir verða við sérsambönd á næstunni.

Áherslur ÍSÍ varðandi afreksstyrki mótast af Afreksstefnu ÍSÍ þar sem segir:

„Afrekssjóður ÍSÍ skal standa að uppbyggingu afreksíþrótta á Íslandi með því að styðja íslenskt afreksíþróttafólk og sérsambönd við að ná sem bestum árangri í alþjóðlegri keppni. Forsenda styrkveitinga er að sérsambönd hafi markvissa og raunhæfa afreksstefnu. Stuðningurinn felst í fjárframlögum, bættri menntun þjálfara og ýmiskonar tæknilegri aðstoð. Þannig verður Afrekssjóður ÍSÍ sérsamböndum til aðstoðar við að efla og bæta íþróttastarf sitt.”

Þá er einnig er horft til þeirra áherslna sem koma fram í íþróttastefnu ríkisins, en þar segir í tengslum við afreksíþróttir:

„Sérsamböndum verði gert fjárhagslega auðveldara að halda úti landsliðum og taka þátt í alþjóðastarfi sem fulltrúar Íslands.”

Hlutverk Afrekssjóðs ÍSÍ er að styðja við sérsambönd/íþróttanefndir ÍSÍ enda berast umsóknir frá þessum aðilum og ábyrgð og þekking á afreksstarfinu á að vera á höndum viðkomandi sérsambanda/íþróttanefnda ÍSÍ.  Mikilvægt er að gera þessum aðilum kleyft að sinna afreksstarfi og efla það enn frekar á næstu árum.

Ekki er ólíklegt að frekari styrkjum verði úthlutað á árinu 2016 og mun stjórn Afrekssjóðs ÍSÍ fylgjast náið með framvindu og árangri á árinu.  Er þar m.a. verið að horfa til Ólympíuleika í Ríó 2016 og þeirra sambanda og íþróttamanna sem stefna að þátttöku á leikunum og eiga þess kost að vinna sér inn keppnisrétt.

Úthlutun sjóðsins kynntu Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ, Guðmundur Ágúst Ingvarsson formaður Afrekssjóðs ÍSÍ, Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ og Andri Stefánsson sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ, þriðjudaginn 29. desember 2015 í fundarsölum ÍSÍ í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal.

Skjal með úthlutun sjóðsins má finna hér.

Styrkveitingar Afrekssjóðs ÍSÍ 2016

  • Blaksamband Íslands (BLÍ) vegna landsliðsverkefna, unglingalandsliðs í strandblaki og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
    •     kr. 1.700.000,-  
  • Badmintonsamband Íslands (BSÍ) vegna landsliðsverkefna, þátttöku í mótum sem gefa stig á heimslista vegna Ólympíuleika 2016 og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
    •     kr. 2.200.000,-  
  • Borðtennissamband Íslands (BTÍ) vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
    •     kr. 600.000,-  
  • Dansíþróttasamband Íslands (DSÍ) vegna landsliðsverkefna, verkefna Nikita Bazev og Hönnu Rúnar Óladóttur og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
    •      kr. 2.400.000,-  
  • Frjálsíþróttasamband Íslands (FRÍ) vegna landsliðsverkefna, stórmótaverkefna í aldursflokkum, undirbúnings fyrir Ólympíuleika 2016, hæfileikamótunar/Úrvalshóps FRÍ, verkefna Ásdísar Hjálmsdóttur, Anítu Hinriksdóttur, Hafdísar Sigurðardóttur, Huldu Þorsteinsdóttur, Örnu Stefaníu Guðmundsdóttur og Guðna Vals Guðnasonar auk fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
    •      kr. 13.400.000,-  
  • Fimleikasamband Íslands (FSÍ) vegna landsliðsverkefna í áhaldafimleikum kvenna og karla, landsliðsverkefna í hópfimleikum kvenna, karla og blandaðra liða, þátttöku í úrtökumóti í áhaldafimleikum vegna Ólympíuleika í Ríó 2016, vegna verkefna Irina Sazonova og Normu Daggar Róbertsdóttur auk fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
    •      kr. 8.100.000,-  
  • Golfsamband Íslands (GSÍ) vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
    •     kr. 5.300.000,-  
  • Hjólreiðasamband Íslands (HRÍ) vegna landsliðsverkefna
    •     kr. 300.000,-  
  • Handknattleikssamband Íslands (HSÍ) vegna landsliðsverkefna A landsliðs karla, A landsliðs kvenna, U20 landsliðs karla, U20 landsliðs kvenna, U18 landsliðs karla, U18 landsliðs kvenna, Afrekshóps karla, Afrekshóps kvenna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
    •     kr. 28.000.000,-  
  • Íþróttasamband fatlaðra (ÍF) vegna landsliðsverkefna í sundi, frjálsíþróttum og vetraríþróttum, undirbúnings fyrir Ólympíumót fatlaðra í Ríó 2016, verkefna Helga Sveinssonar og Jón Margeirs Sverrissonar auk fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
    •     kr. 8.800.000,-  
  • Íshokkísamband Íslands (ÍHÍ) vegna landsliðsverkefna A landsliðs karla, A landsliðs kvenna, U20 landsliðs karla, U18 landsliðs karla og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa kr.       3.200.000,-  
  • Skautasamband Íslands (ÍSS) vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
    •     kr. 600.000,-  
  • Júdósamband Íslands (JSÍ) vegna landsliðsverkefna, þátttöku í mótum sem gefa stig á heimslista vegna Ólympíuleika 2016, verkefna Þormóðs Árna Jónssonar auk fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
    •     kr. 3.550.000,-  
  • Karatesamband Íslands (KAÍ) vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
    •     kr. 1.300.000,-  
  • Körfuknattleikssamband Íslands (KKÍ) vegna landsliðsverkefna A landsliðs karla, A landsliðs kvenna, U20 landsliðs karla, U18 landsliðs drengja, U18 landsliðs stúlkna, U16 landsliðs drengja, U16 landsliðs stúlkna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
    •     kr. 11.400.000,-  
  • Keilusamband Íslands (KLÍ) vegna landsliðsverkefna, unglingalandsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
    •     kr. 900.000,-  
  • Kraftlyftingasamband Íslands (KRA) vegna landsliðsverkefna, vegna verkefna Júlíans Jóhanns Karls Jóhannssonar, Viktors Samúelssonar, Auðuns Jónssonar og Fanneyjar Hauksdóttur auk fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
    •     kr. 5.750.000,-  
  • Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) vegna landsliðsverkefna A landsliðs kvenna, U17 landsliðs kvenna, U17 landsliðs karla og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
    •     kr. 8.900.000,-  
  • Landssamband hestamannafélaga (LH) vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
    •     kr.1.700.000,-  
  • Lyftingasamband Íslands (LSÍ) vegna landsliðsverkefna, þátttöku í EM 2016 og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
    •     kr. 1.100.000,-       
  • Siglingasamband Íslands (SÍL) vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
    •     kr. 600.000,-  
  • Skíðasamband Íslands (SKÍ) vegna landsliðsverkefna í alpagreinum, landsliðsverkefna í skíðagöngu, landsliðsverkefna í snjóbrettum, vegna verkefna Maríu Guðmundsdóttur og Freydísar Höllu Einarsdóttur auk fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
    •     kr. 7.600.000,-  
  • Skylmingasamband Íslands (SKY) vegna landsliðsverkefna kvennalandsliðsins, verkefna U18/U21 landsliðsins, verkefna karlalandsliðsins, þátttöku í úrtökumóti vegna Ólympíuleika í Ríó 2016 og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
    •     kr. 2.300.000,-  
  • Sundsamband Íslands (SSÍ) vegna landsliðsverkefna, unglingalandsliðsverkefna, verkefna boðssundssveitar, undirbúnings fyrir Ólympíuleika 2016, verkefna Hrafnhildar Lúthersdóttur, Eyglóar Óskar Gústafsdóttur og Antons Sveins Mckee auk fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
    •     kr. 14.950.000,-  
  • Skotíþróttasamband Íslands (STÍ) vegna landsliðsverkefna í haglabyssu, landsliðsverkefna í loftbyssu, vegna verkefna Ásgeirs Sigurgeirssonar auk fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
    •     kr. 3.850.000,-  
  • Taekwondósamband Íslands (TKÍ) vegna landsliðsverkefna í sparring, landsliðsverkefna í poomse, þátttöku í úrtökumóti vegna Ólympíuleika í Ríó 2016, vegna verkefna Meisam Rafiei auk fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
    •     kr. 2.300.000,-  
  • Tennissamband Íslands (TSÍ) Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
    •     kr. 600.000,-      
  • ÍSÍ v/ Bogfiminefndar ÍSÍ vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
    •     kr. 600.000,-    

Heildarúthlutun kr. 142.000.000,-