Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Formannafundur ÍSÍ 2015

27.11.2015

Árlegur Formannafundur ÍSÍ var haldinn í dag, föstudaginn 27. nóvember, í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal. Fundurinn er upplýsingafundur framkvæmdastjórnar ÍSÍ og formanna sérsambanda, héraðssambanda og íþróttabandalaga, þar sem framkvæmdastjórn ÍSÍ gefur skýrslu um helstu þætti í starfsemi ÍSÍ og verkefni á milli þinga.

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, ávarpaði fundargesti og bað þá í upphafi fundar að minnast látinna félaga úr íþróttahreyfingunni. Því næst fór hann yfir liðið ár og þakkaði þeim sérsamböndum sem áttu þátt í góðu gengi Smáþjóðaleikanna fyrir samstarfið. Lárus skýrði frá ákvörðun framkvæmdastjórnar ÍSÍ frá fundi stjórnarinnar í gærkvöldi að stofna Afreksíþróttamiðstöð. Skipuð hefur verið bráðabirgðastjórn um miðstöðina og hefur hún formlega tekið til starfa. Lárus fjallaði einnig um góðan árangur íslenskra íþróttamanna undanfarin ár og kostnað afreksíþróttastarfs. Á dögunum kom út skýrsla ÍSÍ þar sem fjallað er um umhverfi afreksíþróttafólks og samanburð á umhverfi afreksíþróttafólks á Íslandi og afreksíþróttafólks í nágrannalöndum okkar. Ljóst er að mikið ber þar á milli.  Lárus fjallaði einnig um þær ógnir sem steðja að íþróttahreyfingunni á alþjóðavísu eins og t.d. hagræðingu úrslita í íþróttakeppnum og lyfjamisferli, en einnig þau tækifæri sem í hreyfingunni búa og koma meðal annars fram í nýútkominni áfangaskýrslu mennta- og menningarmálaráðuneytis um hagrænt gildi og umfang íþrótta á Íslandi.

Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, fór yfir skýrslu stjórnar sem að þessu sinni var að mestu flutt með sýningu myndbanda sem útbúin höfðu verið um starf ÍSÍ. Fjögur mál voru til kynningar á fundinum. Viðar Halldórsson lektor flutti helstu niðurstöður áðurnefndrar áfangaskýrslu um hagrænt gildi og umfang íþrótta, Óskar Örn Guðbrandsson verkefnastjóri kynnti stöðu mála varðandi nýtt skráningakerfi íþróttahreyfingarinnar, Helga Steinunn Guðmundsdóttir varaforseti ÍSÍ fjallaði um Smáþjóðaleikana 2015 og Andri Stefánsson skýrði starf vinnuhóps og skýrslu um kostnað afreksíþrótta á Íslandi.

Að loknum fundi bauð ÍSÍ fundargestum til kvöldverðar í Café Easy. 

Myndir með frétt