Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

21

Metaregn hjá Kristínu Þorsteinsdóttur

16.11.2015Sundkonan Kristín Þorsteinsdóttir frá Íþróttafélaginu Ívari á Ísafirði stóð sig framúrskarandi vel á Evrópumeistaramóti DSISO (Down Syndrome International Swimming Organisation) sem fram fór á Ítalíu fyrir stuttu. Kristín setti þar hvorki meira né minna en tvö heimsmet og tíu Evrópumet, hlaut fimm gullverðlaun, ein silfurverðlaun og ein bronsverðlaun. Á lokahófi mótsins fékk Kristín einnig viðurkenningu fyrir bestu frammistöðu mótsins í kjöri þjálfara, fararstjóra og annarra liða. Frábær árangur hjá Kristínu.

Kristín kom til landsins 12. nóvember síðastliðinn og hlaut hlýjar móttökur frá ættingjum, vinum og fulltrúum íþróttahreyfingarinnar. Ingi Þór Ágústsson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ tók á móti Kristínu fyrir hönd ÍSÍ og færði henni blómvönd að gjöf. Á myndinni er Kristín við komuna til landsins, ásamt Önnu Karólínu Vilhjálmsdóttur framkvæmdastjóra fræðslu- og útbreiðslusviðs ÍF og Special Olympics á Íslandi og Inga Þór Ágústssyni úr framkvæmdastjórn ÍSÍ.

ÍSÍ óskar Kristínu innilega til hamingju með þennan frábæra árangur!