Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
30

Málþing um íþróttir og hreyfingu í framhaldsskólum

24.09.2015

Í gær, miðvikudaginn 23. september, stóð ÍSÍ fyrir málþingi um íþróttir og hreyfingu í framhaldsskólum.

Héðinn Svarfdal frá Embætti landlæknis sagði frá verkefninu um Heilsueflandi framhaldsskóla. Verkefnið byggir á því að nálgast forvarnir út frá jákvæðu og víðtæku sjónarhorni með það að markmiði að stuðla að vellíðan og auknum árangri allra í skólasamfélaginu. Höfuðáhersla verkefnisins er á fjögur viðfangsefni; næringu, hreyfingu, geðrækt og lífsstíl.

Erlingur Jóhannsson prófessor í HÍ sagði frá rannsóknum á hreyfingu og heilsu ungmenna. Í fyrirlestri hans kom m.a. fram að frekar hefur dregið úr offitu en hreyfing minnkar stöðugt, kyrrseta eykst og börn sofa minna en áður. Börn sem sofa lítið eða illa eru líklegri til að fitna og glíma við andlega og félagslega erfiðleika.

Næst á mælendaskrá var Björg Pétursdóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem talaði um stöðu íþrótta í nýrri námskrá framhaldsskólanna, en dregið hefur verulega úr vægi greinarinnar miðað við fyrri námskrá. Töluverð umræða skapaðist á meðal fundargesta um stöðu greinarinnar og kom berlega í ljós andstaða fundarmanna við þessa breytingu.

Næstur á mælendaskrá var Þórarinn Alvar Þórarinsson, verkefnastjóri Þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ. Hann sagði frá verkefnum ÍSÍ í framhaldsskólum, sem eru Lífshlaupið og Hjólum í skólann. Önnur verkefni sem tengir ÍSÍ við framhaldsskóla eru þjálfaramenntun, heimsóknir og fræðsla í Laugardalnum.

Í lokin kynntu íþróttakennarar í Flensborg, Borgarholtsskóla og Fjölbraut í Garðabæ stöðu íþróttakennslu í skólunum og þær breytingar sem orðið hafa á greininni eftir að ný námskrá tók gildi. Í langflestum tilvikum hefur verulega dregið úr kennslu greinarinnar og veldur það miklum áhyggjum í ljósi þess að kyrrseta eykst stöðugt. Miklar og fjörugar umræður sköpuðust í lok fundar.

Myndir með frétt