Göngum í skólann í Vestmannaeyjum
Göngum í skólann stendur nú yfir, frá 9. september, þegar að verkefnið var sett, til 7. október. Skráning skóla hefur farið mjög vel af stað, en enn geta skólar bæst í hópinn. Einfalt er að fara inn á vef verkefnisins www.gongumiskolann.is og skrá sig til leiks. Þar er líka að finna hugmyndir að framkvæmd og skipulagi Göngum í skólann fyrir skólana.
Grunnskóli Vestmannaeyja sendi inn skemmtilega frásögn af sinni þátttöku í Göngum í skólann ásamt Norræna skólahlaupinu og þakkar ÍSÍ skólanum fyrir þátttökuna í verkefninu.
Föstudaginn 11. september var átakið Göngum í skólann formlega sett í Grunnskóla Vestmannaeyja. Nemendur í 8. – 10. bekk gengu yfir í Hamarsskóla og heimsóttu vinabekki sína í 1. – 3. bekk. Bæði var lesið saman og föndrað hjörtu, en hugmyndin með því er sú að með því að ganga eða hjóla í skólann þá þjálfum við hjartað. Í lokin fóru nemendur saman í leiki. Endaði heimsóknin á því að skólastjóri kallaði nemendur og starfsfólk saman á gervigrasvöllinn og setti átakið formlega.
Nemendur í 4. og 5. bekk gengu einnig yfir í Barnaskóla til að hitta nemendur í 6. og 7. bekk. Skólastjóri hélt þar stutta ræðu og setti verkefnið. Nemendur fóru í hópeflisleiki saman og fengu síðan ávexti á skólalóðinni í góða veðrinu. Dagurinn var mjög vel heppnaður og nemendur stóðu sig frábærlega. Í Grunnskóla Vestmannaeyja verður Norræna skólahlaupið haldið 7. október, sem Norræna skólahlaupið er einnig verkefni á vegum ÍSÍ.
ÍSÍ hvetur áfram alla til að fara gangandi eða hjólandi í skólann á meðan að á verkefninu stendur.