Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22

Fimm borgir keppast um Ólympíuleikana 2024

16.09.2015

Í morgun tilkynnti Alþjóðaólympíunefndin hvaða fimm borgir keppast um að halda Ólympíuleikana árið 2024. Þær borgir sem sóttu um að halda leikana eru Búdapest í Ungverjalandi, Hamburg í Þýskalandi, Los Angeles í Bandaríkjunum, París í Frakklandi og Róm á Ítalíu.

100 meðlimir Alþjóðaólympíunefndarinnar munu kjósa á milli þessarra borga þegar nefndin mun funda í Líma í Perú í september 2017. 

Tíðkast hefur að í lokin á vali á borg sem heldur Ólympíuleikana komist tvær borgir í úrslit. Þeim reglum hefur nú verið breytt og komast nú allar borgirnar í lokakosninguna. Breytingin átti sér stað eftir að Kraká, Líev, Osló og Stokkhólmur drógu sig úr baráttunni um að halda Vetrarólympíuleikana 2022 eftir að hafa upphaflega sótt um.

Alþjóðaólympíunefndin mun halda áfram nánu samstarfi við fulltrúa hverrar borgar fyrir sig og bjóða upp á bestu mögulegu þjónustu og aðstoð fram að kosningunni.

Ólympíuleikarnir hafa tvisvar verið haldnir í Los Angeles í Bandaríkjunum, árið 1932 og 1984. Þýskaland hefur tvisvar haldið leikana, í Berlín og Munchen, en aldrei í Hamborg.  París laut í lægra haldi fyrir London í baráttunni um leikana 2012. Ólympíuleikarnir fóru fram í París árið 1900 og 1924. Róm var gestgjafi leikanna árið 1960, en hætti við umsókn um leikana árið 2020. Leikarnir fara fram í Tókíó í Japan árið 2020. Leikarnir hafa aldrie verið haldnir í Ungverjalandi, en þjóðin er ein af þeim sigursælustu á Ólympíuleikunum.

Spennandi verður að fylgjast með gangi mála í framhaldinu, en niðurstaðan verður hins vegar ekki ljós fyrr en í september 2017. Hægt er að fylgjast með fréttum á heimasíðunni www.olympic.org