Vetrarólympíuleikarnir í Peking 2022
Alþjóða ólympíunefndin tilkynnti í dag að Vetrarólympíuleikar ungmenna árið 2020 yrðu í Lausanne í Sviss og að Vetrarólympíuleikarnir árið 2022 yrðu haldnir í kínversku höfuðborginni Peking.
Peking sigraði kasösku borgina Almaty í kosningu um keppnisstað, en áður höfðu Ósló, Stokkhólmur, Kraká og Lviv dregið sig út af stjórnmálalegum eða fjárhagslegum ástæðum. Sumarólympíuleikarnir árið 2008 fóru fram í Peking og þar með verður Peking fyrsta borgin til þess að halda Ólympíuleika bæði að sumri og vetri til.Peking þótti samkvæmt rökstuðningi Alþjóða ólympíunefndarinnar áhættuminni vettvangur en Almaty til þess að halda leikana vegna fyrri reynslu af því að halda Ólympíuleika. Auk þess er talið að Peking bjóði upp á meiri möguleika til þess að markaðssetja þær greinar sem verða á dagskrá leikanna. Þá þótti sterkur efnahagur Kína auka líkur á því að glæsilega yrði staðið að leikunum.
Vetrarólympíuleikar ungmenna munu fara fram í Lausanne í Sviss 2020. Lausanne sigraði rúmensku borgina Brasov í kosningu um keppnisstað.
Vetrarólympíuleikar ungmenna (The Winter Youth Olympic Games, WYOG) eru ætlaðir fyrir ungt afreksfólk í íþróttum á aldrinum 15 til 18 ára. Fyrstu Vetrarólympíuleikar ungmenna fóru fram í janúar 2012 í Innsbruck í Austurríki og þeir næstu munu fara fram 12. - 21. febrúar 2016 í Lillehammer í Noregi.