Öðrum keppnisdegi lokið í Tbilisi
Þá er öðrum keppnisdegi lokið á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Tbilisi í Georgíu.
Í sundinu keppti Ólafur Sigurðsson í 400 m. skriðsundi. Þar synti hann á tímanum 4.16,72, nærri sínum besta tíma. Stefanía synti 800 m. skriðsund á tímanum 9.54,75.
Í tvíliðaleik í tennis töpuðu Hekla María og Sara Lind naumlega fyrstu lotu fyrir andstæðingum sínum frá Liechtenstein en þurftu svo að gefa leikinn vegna meiðsla. Daníel Bjartur og Björgvin Atli lutu í lægra haldi fyrir drengjum frá Svíþjóð í tveimur settum 6-1 og 6-0. Þar með hefur tennisfólkið okkar lokið keppni.
Í frjálsíþróttakeppninni hljóp Hildigunnur Þórarinsdóttir í undanriðlum í 100 m. grindahlaupi í morgun á 15.19 s. Seinnipartinn tók hún svo þátt í undankeppni langstökksins þar sem hún stökk 4.91m. Daði Arnarson var hársbreidd frá sínum besta tíma þegar hann hlóp 800 metrana á 2.00.69 eftir nokkrar stympingar í hlaupinu.
Mikill hiti var í dag í Tbilisi, fór hann allt upp í 39 gráður, áfram er spáð miklum hita. Á morgun keppir Stefanía í 400 m. skriðsundi, Hilda Steinunn í stangarstökki, Bjarki Freyr í 200 og 400 m. hlaupum, Þórdís Eva í 400 m. hlaupi. Í fimleikunum keppa þær Fjóla Rún, Inga og Nanna.
Á myndunum sem fylgja má sjá Daða í 800 metra hlaupinu, Stefaníu stinga sér til sunds í 800 m. skriðsundi og Söru Lind og Heklu Maríu fyrir leikinn sinn.