Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22

Keppni lokið hjá Íslendingum í Bakú

27.06.2015

Í dag, laugardaginn 27. júní, luku Íslendingar keppni á Evrópuleikunum í Bakú.  Síðasti keppandi Íslands var Bryndís Bolladóttir sem keppti í 50m flugsundi.  Synti hún á 29.43 sek. og varð fjórða í sínum riðli, og í 39. sæti af 50. keppendum.

Þrír sundmenn kepptu í lauginn í gær en Bragi Hallsson keppti í 50m baksundi þar sem hann synti á 27.91 sek og lenti í 37. sæti af 43 keppendum.  Bryndís Bolladóttir keppti í 50m skriðsundi og synti á 27.39 sek. sem gerði 36. sæti af 58 keppendum og Eydís Kolbeinsdóttir synti 200m fjórsund á tímanum 2:30.94 mín og endaði í 36. sæti af 40 keppendum.

Í gær fór einnig fram keppni í júdo og keppti Sveinbjörn Iura í -81kg flokki karla.  Glímdi hann við sterkan Þjóðverja, Alexander Wieczerzak, í 64 manna úrslitum og tapaði hann eftir að sá þýski hafði náð fastataki í gólfi.  Sveinbjörn glímdi vel en þess má geta að andstæðingur hans lauk keppni með bronsverðlaun um hálsinn.

Hægt er að skoða betur úrslit á leikunum á slóðinni http://www.baku2015.com/schedules-results/country=isl/index.html

Á morgun, sunnudaginn 28. júní, er lokadagur leikanna og eru úrslitaleikir í sumum íþróttagreinum á dagskrá þann daginn.  Leikunum verður svo slitið á frjálsíþróttaleikvanginum í Bakú með glæsilegri lokahátíð annað kvöld.

Myndir með frétt