Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Sjáumst í San Marinó

10.06.2015

Lokahátíð Smáþjóðaleikanna fór fram í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardal laugardaginn 6. júní síðastliðinn. Tónlistarmaðurinn  Sveinbjörn Thorarensen eða Hermigervill eins og hann kallar sig, kom stuðinu af stað á meðan gestirnir streymdu í garðinn.
Helga Steinunn Guðmundsdóttir varaforseti ÍSÍ og formaður skipulagsnefndar leikanna opnaði formlega dagskrá lokahátíðarinnar með stuttu ávarpi þar sem hún þakkaði öllum samstarfsaðilum leikanna og öllum þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem störfuðu við undirbúning og framkvæmd leikanna. Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra hélt einnig stutt ávarp sem og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. 
Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ ávarpaði þátttakendur og gesti hátíðarinnar og afhenti síðan Gian Primo Giardi, forseta Ólympíunefndar San Marínó, fána Smáþjóðaleikanna til varðveislu næstu tvö árin en með þeirri athöfn tók hann við hlutverki forseta framkvæmdastjórnar Smáþjóðaleikanna úr höndum Lárusar fram yfir leikana í San Marínó 2017. Íþróttafólk frá San Marínó kom upp á svið með forsetanum og hentu frisbídiskum til áhorfenda í lok formlegrar dagskrár.  Á diskunum stóð "See you in San Marino" eða „Sjáumst í San Marínó”. Veðrið var stillt og gott og þátttakendur skemmtu sér vel við undirleik hljómsveitanna Amabadama og Hjálma. 

Myndir með frétt