Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Fundur ráðherra aðildarþjóða GSSE

05.06.2015

Þann 1. júní síðastliðinn var haldinn fundur ráðherra þeirra ríkja sem taka þátt í Smáþjóðaleikunum 2015 í Reykjavík. Helsta efni fundarins var að ræða sameiginlega yfirlýsingu þeirra og helstu úrlausnarefni sem yfirvöld íþróttamála standa frammi fyrir. 
Í ávarpi sínu ræddi Illugi Gunnarsson mennta og menningarmálaráðherra meðal annars um íþróttir sem efnahagslegt fyrirbæri og hvaða afleiðingar gríðarleg fjárhagsumsvif á því sviði hafa haft í för með sér. Jákvæðu hliðarnar eru t.d. aukin fjárráð íþróttasambanda og auknir möguleikar á atvinnumennsku. „Allt þetta hefur fjölmargar jákvæðar hliðar en þetta hefur jafnframt einnig í för með sér óæskilega vaxtaverki. Meira ber á því á ýmsum sviðum að heiðarleika í íþróttum sé ógnað. Lyfjamisnotkun íþróttamanna byggist öðru fremur á ásókn í peninga og er að sjálfsögðu svindl sem bitnar á heiðarlegu íþróttafólki en er ekki síður ógn við heilbrigði þeirra sem neyta ólöglegra lyfja. Hagræðing úrslita í kappleikjum er einnig bara aðferð til þess að hámarka fjárhagslegan ávinning í veðmálum og bitnar á heiðarlegu íþróttafólki. Þetta þarf að uppræta“.
Þá ræddi ráðherra hlutverk alþjóðasambanda í íþróttum og sagði m.a.: „Sú staðreynd að spilling fær stundum þrifist innan alþjóðasambanda er m.a. tilkomin vegna mjög sterkrar fjárhagslegrar stöðu sem skapar þá hættu að ákvarðanataka sem þar á sér stað litist um of af þröngum fjárhagslegum forsendum einstakra þjóða innan þeirra eða forystumanna þeirra fremur en að réttar ákvarðanir séu teknar út frá hagsmunum heildarinnar. Til lengri tíma mun þetta hafa í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir íþróttirnar og samfélagið,  afleiðingar sem stjórnvöld á hverjum tíma geta ekki horft framhjá. Alþjóðasambönd á sviði íþrótta, bæði álfusamböndin og heimssamböndin, gegna mikilvægu hlutverki fyrir hverja íþróttagrein og því er mjög mikilvægt að landssambönd íþróttagreina í öllum lýðræðislöndum séu samtaka í viðleitni sinni til að efla góða lýðræðislega stjórnarhætti, auka gegnsæi og setja sér siðferðileg viðmið í öllu starfi og fylgja þeim eftir af ábyrgð“.
Að lokum ræddi ráðherrann hlutverk smáþjóða í þessu samhengi og benti á Smáþjóðaleikana sem góða fyrirmynd og til marks um hvernig hægt er að standa að stórum íþróttamótum undir jákvæðum formerkjum þar sem er öflug en heiðarleg keppni og íþróttafólkið sjálft er í forgrunni.
Yfirlýsing ráðherranna var samþykkt með breytingum sem miða að því að undirstrika mikilvægi heiðarleika í íþróttum og það feli í sér að berjast gegn mútustarfsemi, svindli og annari spillingu innan alþjóðlegra íþróttasambanda. Það felur einnig í sér að vinna gegn áreitni og mismunun af öllu tagi innan íþrótta, eins og t.d. kynþáttahatri, einelti og ofbeldi gegn börnum.

Yfirlýsingu ráðherranna má lesa með því að smella hér.  Á myndinni eru ráðherrar smáþjóðanna ásamt forsetum ólympíunefnda viðkomandi þjóða.