Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
23

Smáþjóðaleikar settir!

02.06.2015Setningarhátíð Smáþjóðaleikanna fór fram við hátíðlega athöfn í Laugardalshöllinni nú í kvöld. Hátíðin var aðeins fyrir þátttakendur og boðsgesti, en hún var sýnd beint á RÚV. Ákveðið var að halda hátíðina innandyra, þar sem veðrið á Íslandi er óútreiknanlegt. Fyrri reynsla af Setningarhátíð Smáþjóðaleikanna, sem haldnir voru á Íslandi í júní árið 1997, sýndi og sannaði að allt getur gerst þegar kemur að íslensku sumarveðri. Þá snjóaði á íþróttafólk og áhorfendur á Laugardalsvellinum, þar sem athöfnin fór fram. 
Þóra Arnórsdóttir var kynnir Setningarhátíðarinnar og Páll Óskar sá um að koma fólki í salnum í gott stuð í flottu opnunaratriði sem innblásið var af íslenskri náttúru. Auk Páls Óskars á sviðinu voru fjölmargir dansarar sem tóku þátt í vel heppnuðu og flottu atriði. Meðal gesta voru leiðtogar frá þeim löndum sem taka þátt á Smáþjóðaleikunum 2015 og forsetahjónin Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff.
Þjóðirnar gengu fylktu liði inn í salinn ein af annarri og var það fyrirliði íslenska landsliðsins í körfuknattleik, Hlynur Bæringsson, sem fór fyrir íslenska hópnum sem fánaberi. 
Eftir að keppnisliðin höfðu fengið sér sæti ávörpuðu Lárus Blöndal forseti ÍSÍ og Marc Theisen fulltrúi frá Evrópusambandi ólympíunefnda þátttakendur og gesti. 
Áður en Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands setti leikana formlega var eldstæði Smáþjóðaleikanna tendrað. Ragnheiður Runólfsdóttir tendraði eldstæðið frá sviði Laugardalshallarinnar og var þetta mikið sjónarspil sem áhorfendur fylgdust með á stórum skjám inni í salnum. Páll Óskar lokaði síðan vel heppnaðri athöfn með laginu International.
Keppni hefst formlega í fyrramálið kl. 9. Á heimasíðu leikanna www.iceland2015.is má finna dagskrá morgundagsins og vikunnar. 
Frítt er inn á alla íþróttaviðburði og allir hvattir til þess að nýta sér þetta einstaka tækifæri til þess að koma og sjá heimsklassa íþróttamenn sýna hvað í þeim býr.