Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
21

HÍ og ÍSÍ efla samstarf á sviði íþrótta

19.01.2015Samvinna um eflingu faglegs umhverfis íþróttahreyfingarinnar og þróunarstarf og rannsóknir á sviði afreksíþrótta og barna- og æskulýðsstarfs og afreks- og rannsóknamiðstöð í íþróttum er meðal áhersluatriða í nýjum samstarfssamningi sem Háskóli Íslands (HÍ) og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) hafa gert. Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, og Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, undirrituðu samninginn í húsakynnum háskólans 7. janúar síðastliðinn.

Með samningnum staðfesta háskólinn og ÍSÍ vilja sinn um að efla samstarf á breiðum þverfræðilegum grundvelli og skilgreina afmörkuð samstarfsverkefni sem ráðist verður í. Ætlunin er að nýta sem best vísindalega sérþekkingu og kunnáttu innan mismunandi fræðasviða og deilda Háskóla Íslands til að styrkja framvindu og gæði íþróttastarfs í landinu og að sama skapi sækja í þann þekkingarbrunn sem býr hjá starfsfólki innan íþróttahreyfingarinnar.

Meðal verkefna sem HÍ og ÍSÍ hyggjast vinna að í sameiningu er uppbygging afreks- og rannsóknarmiðstöðvar í íþróttum, efling faglegs umhverfis íþróttahreyfingarinnar, sameiginlegar ráðstefnur, málþing og námskeið með aðkomu innlendra og erlendra sérfræðinga auk þess sem ætlunin er að efla þróunarstarf og rannsóknir, t.d. á sviði afreksíþrótta, barna- og æskulýðsstarfs, íþróttastjórnunar og lyfjamála auk viðfangsefna sem tengjast Alþjóðaólympíunefndinni. 

Samkvæmt samningnum er m.a. gert ráð fyrir að háskólinn efli menntun á sviði íþrótta-, heilbrigðis-, hug- og félagsvísinda og greina sem beint eða óbeint tengjast íþróttum. Þar má nefna, auk íþrótta- og heilsufræða og heilbrigðisvísinda, lögfræði, hagfræði, sagnfræði, sálfræði og siðfræði. Þá gerir samningurinn ráð fyrir að ÍSÍ greiði fyrir auknu aðgengi háskólasamfélagsins að íþróttahreyfingunni, m.a. með möguleikum á rannsóknum fyrir nemendur í framhaldsnámi. Auk þess hyggst sambandið styrkja fræðslu til almennings, iðkenda og fagaðila um íþróttir, heilsueflingu og endurhæfingu m.a. með fræðsluviðburðum og miðlun efnis á sviði íþrótta.

Sérstakur stýrihópur, sem er skipaður tveimur fulltrúum frá hvorum aðila, mun sjá um framkvæmd samningsins en í því felst m.a. að móta stefnu í sameiginlegum málefnum HÍ og ÍSÍ á sviði íþrótta, setja sérstök markmið um samstarf til skemmri tíma og móta tillögur um leiðir að markmiðunum.

Myndir með frétt