Jón Arnór íþróttamaður ársins 2014
Á sameiginlegu hófi Samtaka íþróttafréttamanna og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í gær, var Jón Arnór Stefánsson, körfuknattleiksmaður útnefndur Íþróttamaður ársins 2014. Þetta er í 59. sinn sem Samtök íþróttafréttamanna standa fyrir vali á íþróttamanni ársins og Jón Arnór er annar körfuknattleiksmaðurinn í sögu kjörsins sem hlýtur þessa viðurkenningu.
Jón Arnór er leikmaður spænska liðsins Unicaja Málaga. Hann hlaut 435 atkvæði af 480 mögulegum. Í öðru sæti varð knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Swansea, með 327 atkvæði og í þriðja sæti hafnaði handknattleiksmaðurinn Guðjón Valur Sigurðsson, leikmaður Barcelona, með 303 atkvæði.
Í þriðja sinn tilnefndu Samtök íþróttafréttamanna þjálfara ársins og lið ársins. Þjálfari ársins er Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Íslandsmeistaraliðs Stjörnunnar í knattspyrnu, og lið ársins er landslið Íslands í körfuknattleik.Tveir einstaklingar voru útnefndir í Heiðurshöll ÍSÍ, þeir Ásgeir Sigurvinsson knattspyrnumaður og Pétur Guðmundsson körfuknattleiksmaður.
Einnig voru viðurkenningar ÍSÍ til íþróttamanna og íþróttakvenna sérgreina íþrótta afhendar.