Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
21

ÍSÍ hlýtur Norrænu lýðheilsuverðlaunin

20.10.2014Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hlaut Norrænu lýðheilsuverðlaunin þann 16. október síðastliðinn fyrir að leggja sitt af mörkum til bættrar lýðheilsu á Íslandi. Hafsteinn Pálsson, formaður Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ, og Jóna Hildur Bjarnadóttir, verkefnastjóri, tóku við verðlaununum fyrir hönd ÍSÍ sem Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra afhenti í tengslum við fund heilbrigðis- og félagsmálaráðherra Norðurlanda í Kaupmannahöfn. 

Það er Norræna ráðherranefndin (NMR) og Norræni lýðheilsuháskólinn (NHV) sem standa að Norrænu lýðheilsuverðlaununum. Markmiðið er að vekja athygli á mikilvægu starfi í þágu heilbrigðis og vellíðunar. Þar er átt við félagslega, líkamlega og andlega þætti í umhverfinu, þætti sem hafa áhrif á lífsstíl, en jafnframt skipulag og starfshætti heilbrigðis- og sjúkraþjónustu. Verðlaunin eru veitt einstaklingi, samtökum eða stofnun sem lagt hefur mikið af mörkum til bættrar lýðheilsu á Norðurlöndum. 

Í rökstuðningi fyrir verðlaunaveitingunni segir: „Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur í meira en tvo áratugi haft mikil áhrif á lýðheilsu á Íslandi með því að leggja áherslu á að almenningur lifi heilbrigðu lífi. ÍSÍ hefur haft frumkvæði að áætlunum um hreyfingu, lífsstíl og vellíðan almennings. Áætlanirnar, heilsu- og hvatningarverkefnin, hafa haft mikil áhrif á fólk á öllum aldri og skilað góðum árangri hjá áhættuhópum. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands er verðugur handhafi Norrænu lýðheilsuverðlaunanna 2014 fyrir skilvirkt og kerfisbundið starf að lýðheilsumálum.“

Eitt af markmiðum Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ er að efla hreyfingu og heilbrigða lífshætti hjá landsmönnum á öllum aldri. Árlega stendur sviðið fyrir fræðslufundum fyrir 60 + og heilsu- og hvatningarverkefnum sem höfða til mismundi aldurshópa. Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ hefur verið haldið í 25 ár. Börn og ungmenni eru sérstaklega hvött til þess að nota virkan ferðamáta í og úr skóla með verkefninu Göngum í skólann og Hjólum í skólann. Hjólað í vinnuna hvetur einstaklinga á vinnumarkaði til að velja virkan ferðamáta til og frá vinnu. Árið 2008 var Lífshlaupið ræst í fyrsta sinn, en markmið þess er að hvetja einstaklinga til að ná ráðleggingum Embætti landlæknis um hreyfingu. Lífshlaupið höfðar til allra landsmanna þar sem verkefnið býður upp á vinnustaðakeppni, grunnskóla-, framhaldsskóla- og einstaklingskeppni. Hreyfitorg.is fór í loftið haustið 2013 og er ætlað að veita góða yfirsýn yfir sem flest þeirra hreyfitilboða sem eru til staðar á hverjum tíma, hvar sem er á landinu. Hlutverk vefsins er að brúa bilið á milli þeirra sem leita eftir þjónustu fyrir sig, eða aðra og þeirra sem standa fyrir hreyfitilboðum. 

Til að móta og þróa verkefnin hefur Almenningsíþróttasvið ÍSÍ unnið náið með Embætti landlæknis og öðrum hagmunaaðilum. Einnig hafa Mennta- og menningarmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið ásamt öflugum fyrirtækjum stutt fjárhagslega við verkefnin. Almenningsíþróttasvið ÍSÍ er í góðu sambandi við önnur Norræn sambönd í tengslum við íþróttir í fyrirtækjum. 

Almenningsíþróttasvið ÍSÍ hefur á síðustu árum lagt metnað sinn í að hvetja almenning til reglubundinnar hreyfingar í gegnum ofangreind verkefni. Norrænu lýðheilsuverðlaunin eru mikil viðurkenning og innblástur til að halda áfram að hvetja almenning til þátttöku í íþróttum, almennri hreyfingu og útivist og bjóða upp á fjölbreytt verkefni þar sem allir landsmenn geta fundið eitthvað við sitt hæfi. 

 


Myndir með frétt