Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
3

Býr kraftur í þér?

03.10.2014Í dag var formlega opnað fyrir skráningar sjálfboðaliða á vef Smáþjóðaleikanna sem haldnir verða á Íslandi 1.- 6. júní 2015. Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, virkjaði rafræna skráningu fyrir sjálfboðaliða, og bauð framkvæmdastjóra ZO•ON, Halldóri Erni Jónssyni, og íþróttakempunum Brodda Kristjánssyni og Helgu Margréti Þorsteinsdóttur að skrá sig sem fyrstu sjálfboðaliðana. Broddi er íþróttakennari, Ólympíufari, margfaldur Íslandsmeistari í badminton og heimsmeistari 45-49 ára. Brodda hefur alltaf langað að keppa á Smáþjóðaleikum, en badminton hefur því miður ekki verið á meðal þátttökugreina. Helga Margrét er læknisfræðinemi, fyrrverandi sjöþrautarkeppandi og á Íslandsmetið í sjöþraut utanhúss og fimmtarþraut innanhúss. Hún vill gefa til baka til íþróttahreyfingarinnar eftir allt sem íþróttirnar hafa gefið henni og hlakkar til að fylgjast með íslensku íþróttafólki á leikunum.

Smáþjóðaleikarnir eru stærsta verkefni sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur tekið að sér. Búist er við að um 2500 manns komi að leikunum með einum eða öðrum hætti, þar af 800 keppendur. Reiknað er með um 25-30.000 áhorfendum. Störf sjálfboðaliða skipa mikilvægan sess í verkefni af þessari stærð og því leitar ÍSÍ til þjóðarinnar um aðstoð. Áætlað er að um 1200 sjálfboðaliðar starfi á leikunum. Sjálfboðaliðastörfin felast meðal annars í því að aðstoða við viðburði eins og setningar- og lokahátíð og ýmsa þjónustuþætti í tengslum við íþróttagreinarnar. ÍSÍ útvegar sjálfboðaliðum glæsilegan fatnað frá ZO•ON sem þeir klæðast við störf sín á Smáþjóðaleikunum og fá síðan til eignar.

„Náttúrulegur kraftur“ er slagorð Smáþjóðaleikanna 2015. Smáþjóðaleikarnir eru auglýstir á fallegum veggspjöldum af íþróttafólki í íslenskri náttúru. Við Íslendingar erum hvað stoltust af náttúru Íslands og íþróttafólkinu sem við eigum. Við búum yfir stórfenglegri náttúru sem er í senn einstaklega falleg og kröftug og glímu okkar við náttúruöflin þekkja allir vel. Hugmyndin á bak við það að blanda saman náttúrumyndum og íþróttafólki er sú að sýna sameiginlegan kraft íslensku náttúrunnar og íþróttafólksins. Íþróttafólkið okkar býr yfir miklum krafti sem brýst út í æfingum og íþróttakeppnum og glímunni við andstæðinginn. Sjálfboðaliðar Smáþjóðaleikanna 2015 búa einnig yfir miklum krafti, leggja hönd á plóg og aðstoða íþróttafólkið að ná sínum markmiðum. Sjálfboðaliðar hafa jákvæð áhrif með nærveru sinni og með þeirra hjálp náum við öll enn betri árangri. Markmið sjálfboðaliðastarfs á Smáþjóðaleikunum er að leggja sitt af mörkum og fá um leið tækifæri til vaxtar og reynslu sem nýtist í viðfangsefnum lífsins.

Smáþjóðaleikarnir þarfnast framlags sjálfboðaliða. Langar þig að taka þátt í leikunum sem sjálboðaliði? Vilt þú leggja þitt að mörkum til íþróttafólksins? Hefur þú áhuga á því að kynnast fólki, fylgjast með besta íþróttafólki Evrópu og jafnvel að sjá ný íþróttamet slegin? Býr kraftur í þér?

ÍSÍ og ZO•ON hvetja fólk til þess að skrá sig í sjálfboðaliðastörf á heimasíðu Smáþjóðaleikanna 2015 www.iceland2015.is undir hnappnum „Sjálfboðaliðar".