Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

27

Ráðstefna um íþróttir barna- og unglinga

23.09.2014Um síðast liðna helgi sóttu 16 einstaklingar ráðstefnu um íþróttir barna- og unglinga í Bosön í Svíþjóð. Alls komu þátttakendurnir frá ÍSÍ, UMSK, ÍBA, ÍBH, ÍBR, HSÍ, TKÍ, TSÍ, BLÍ, KSÍ og GSÍ. Ráðstefnan er haldin á þriggja ára fresti til skiptis á Norðurlöndunum og ákveðnar íþróttagreinar teknar fyrir hverju sinni.  Í ár voru íþróttagreinarnar átta talsins, golf, handbolti, blak, fótbolti, tennis, taekwondo, rathlaup og amerískur fótbolti. Á ráðstefnunni voru bæði fyrirlestrar og  unnið í hópum, bæði þverrt á greinar og svo fundaði hver íþróttagrein fyrir sig.

Yfirskrift ráðstefnunnar í ár var "Íþróttafélag framtíðarinnar" og var markmiðið að reyna að sjá fyrir hvaða breytingar eru líklegar og hvernig eigi að mæta þeim innan íþróttanna. Helstu niðurstöður voru þær að til þess að fá börn og unglinga til að stunda íþróttir og halda þeim í íþróttum væri mikilvægt að auka sveigjanleika, auka samvinnu við skóla og bæta þjálfaramenntun. Mikil áhersla var lögð á að til þess að ná árangri og halda börnum og unglingum í starfinu þyrfti starfið að vera skemmtilegt. 

Íslensku þátttakendurnir voru sammála um að mikilvægt væri að fá innsýn í það hvað frændur okkar á Norðurlöndunum eru að gera, en ekki síður að fá staðfestingu á því góða starfi sem unnið er í íþróttahreyfingunni með börnum og unglingum.